149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nefnilega einmitt rétt: Við getum ekki ákveðið það hvað þjóðir lifa lengi eða stutt eða hvernig þær eru út frá áfenginu því að það eru örugglega ýmsir aðrir þættir sem skipta máli. Ég er einfaldlega að segja að þær fullyrðingar um að aukið aðgengi — sem er ekki víst að verði aukið þó að fleiri geti selt áfengi en ÁTVR, það getur bara vel verið að verslunum fækki frekar. Það er ekkert samasemmerki þar á milli. Þær fullyrðingar um að ef við aukum þá möguleika að fleiri geti selt áfengi, þá muni heilsufar þjóðarinnar fara til andskotans, það er auðvitað ekki þannig. Og við megum heldur ekki gleyma andlegu heilsunni, hv. þingmaður, sem ég held að sé ekki síður mikilvæg en líkamleg heilsa. Ég fullyrði að ef ég hefði ekki áfengi við hönd reglulega væri mín andlega heilsa verri. [Hlátur í þingsal.]

Svo að lokum varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Af hverju eiga þeir að greiða þjóðaratkvæði um þetta, þ.e. þeir sem neyta ekki vörunnar eða kunna ekki með hana að fara? Það á að binda þjóðaratkvæðagreiðsluna við þá sem kunna með vöruna að fara og finnst hún góð. (Gripið fram í: Þessir þrír?)