149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:36]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála hv. þingmanni að ég hef miklar áhyggjur af þessu og óttast þá kannski, eins og hv. þingmaður kom inn á, sérstaklega það að létta af auglýsingabanninu og normalísera áfengisneyslu í raun þannig. Það getur verið hætta fólgin í því og það sýnir sig t.d. eins og í tilfellinu tóbak, að sýnileiki vörunnar hefur gríðarlega mikil áhrif á neyslu.

Þess vegna er mjög mikilvægt, vil ég meina, að við beitum þeim ráðum sem við höfum til að koma í veg fyrir að auka sýnileikann, beita frekar ráðum sem við höfum til að minnka sýnileikann. Þannig getum við sennilega helst þjónað þeim hópi og kannski má segja að við skuldum þeim hópi að tryggja að umhverfi sem hann býr í sé honum öruggt.

(Forseti (ÞorS): Nú minnir forseti á að þingmálið er íslenska.)