149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ástæðan fyrir að ég er á þessu máli er að ég hef skoðað skýrslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þar er klárlega tekið til þess hvað áfengi veldur miklum skaða, en einnig er fjallað um hvað hefur áhrif á það. Þeir leggja til að reynt sé að takmarka neysluna. Á sama tíma er það aukið, fimmfaldað sem fer af áfengisgjaldinu í forvarnir. Við vitum að forvarnir hafa miklu meiri áhrif til að draga úr neyslunni en bönnin, þ.e. það að hækka verðið. Ef maður hækkar verðið um 10% minnkar neyslan um 4%, ef maður eykur aðgengi um 10% eykst neyslan um 2%. Þannig að þessi verkfæri eru skilvirk.

Ef við tölum um yngstu aldurshópana hefur komið fram, a.m.k. á Íslandi, að á sama tíma og aðgengið á Íslandi jókst um 250% fór neysla ungmenna, þ.e. þeirra sem eru í efstu bekkjum grunnskóla, niður um sama hlutfall.

Þannig að forvarnir, sérstaklega eins og fram kemur í handbókinni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem er strategísk handbók eða stefnumiðaðar leiðir til að draga úr skaðsemi áfengisneyslu — ef maður virkjar nærumhverfi barnanna, skólastarfsmenn, foreldra o.s.frv., þá nær maður þessu hlutfalli. Það er nákvæmlega það sem gert var á Íslandi. Það rímar alla vega við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að virki. Forvarnir eru því gríðarlega árangursríkar og miklu árangursríkari en að takmarka aðgengið eða horfa á verðið.

Nú veit ég að samkvæmt þessu frumvarpi á að fimmfalda þá peninga sem fara í lýðheilsusjóð, sem nýtast m.a. í forvarnir. Fimmfalda þá. — Ókei. Hvað er annað hægt að gera með þetta? Þarna erum að nýta það í akkúrat það sem virðist virka best á Íslandi og er í samræmi við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að virki, þ.e. að virkja nærsamfélag barnanna, ekki segja að þetta sé svo óhollt, heldur virkja samfélagið.

Og svo hitt. Hægt að nota féð í lýðheilsusjóði og setja jafnvel upp meðferðarúrræði. Það er akkúrat veikasta fólkið — og það kemur líka fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 2014, stöðuskýrslu um áfengi og heilsu. Þar kemur fram, með leyfi forseta, ég þýði þetta bara:

„Einstaklingar og fjölskyldur sem verða fyrir skaðlegri notkun á áfengi ættu að hafa aðgengi að hagkvæmum og árangursríkum forvörnum og heilbrigðisaðbúnaði“ — eða „care services“, eins og það er orðað hér, með leyfi forseta.

Um slíkt er ekki svo mikið að ræða á Íslandi. Ef við mundum setja meira af áfengisgjaldinu í bæði forvarnir og meðferðarúrræði værum við að gera þetta. — Akkúrat þetta. Þá værum við einmitt að aðstoða þann hóp sem fer hvað verst út úr misnotkun á áfengi. Það samræmist algjörlega hugmyndafræði minni; við eigum einmitt að hjálpa þeim sem ekki geta hjálpað sér sjálfir, bæði börnum og einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem misnota áfengi. Þar finnst mér að eigi að vera fókusinn, ef hugmyndin er að minnka skaðleg áhrif of mikillar neyslu áfengis.

Þetta frumvarp fimmfaldar þá peninga sem fara af áfengisgjaldinu í forvarnir. SÁÁ kallaði eftir því fyrir nokkrum árum síðan með Betra lífi, átaki á þeirra vegum, að fá 10% af áfengisgjaldi ríkisins í meðferð og forvarnir. Ég tek undir það. Það er nokkuð sem hægt væri að gera í þessu frumvarpi, ef mönnum sýnist. Að leyfa fyrirtækjum eða einkaaðilum að selja áfengi mun mögulega hafa einhver áhrif á aðgengi, en ekki er verið að skipta sér af aðgengi í tíma, bara í rými hvað þetta varðar, og ef maður eykur aðgengi um 10%, eykst neyslan um 2%, mjög léttvægt. En síðan eru peningar settir í það að gera fólki kleift að fá meðferðarúrræði.

Og hvernig virka meðferðarúrræðin hjá SÁÁ? Ég rannsakaði það á sínum tíma af því að ég vildi taka upplýsta ákvörðun um málið. Formaður SÁÁ sagði mér að tveimur árum eftir meðferð hjá SÁÁ neyttu enn þá 50% þeirra sem fóru í meðferð ekki áfengis. Það er rosalega góður árangur. Þarna ættum við að setja peningana. En það virðist ekki vera vilji fyrir því að setja aukna peninga í lýðheilsusjóð af þeim skatti sem settur er á með áfengisgjaldi ríkisins. Aðeins 1% af þessum skatti fer í lýðheilsusjóð. Umræða um þennan skatt var hluti af ákalli SÁÁ sínum tíma, Betra lífi, en þar segir, með leyfi forseta:

„Bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós að 20% af fólkinu drekka 88% af áfenginu. Áfengismarkaðurinn er því fyrst og fremst knúinn áfram af sjúklegri ofneyslu fólks sem skaðar heilsu sína, félagslega stöðu og lífsgæði sinna nánustu með drykkju. Sömu rannsóknir sýna að 2,5% fólksins, okkar allra veikasta fólk, drekka 26% af heildarmagninu.“

Við skattleggjum áfengið og 26% af þeim skatti fer á veikasta fólkið, á veikustu fjölskyldunnar. 1% af því skilar sér í lýðheilsusjóð. Þetta frumvarp býður upp á að 5% fari þangað. Hvers vegna? Svo einkaaðilar geti selt áfengi. Mér er ekkert sérstaklega umhugað um það. En heildaráhrifin? Jú, einkaaðilar mega selja áfengi, mögulega eitthvert smávægilega aukið aðgengi sem hefur lítil áhrif samkvæmt grunngögnum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin notar. Ég skoðaði þau ofan í kjölinn. En við fáum 5% meira til lýðheilsusjóðs.

Ef mönnum finnst það ekki nóg, hvers vegna þá ekki að setja þetta í nefnd og leggja til, eins og SÁÁ sagði, að 10% áfengisgjaldinu, skattinum sem 26% fólks borgar, sem veikasta fólkið borgar fari í lýðheilsusjóð, fari til SÁÁ, fari í meðferðarúrræðið, fari í forvarnirnar?

Svo er bent á áfengisauglýsingar. Já, segjum bara: Taka þær út líka.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á að ef maður er með áfengisauglýsingar þá eykst neysla. Þetta er áfengi, vímuefni, fíkniefni. Það þarf ekkert að auglýsa það í sjálfu sér, það auglýsir sig sjálft; og kannski með öflugustu auglýsingaleiðinni sem til er, þ.e. maður-á-mann-auglýsingaherferð, sem virkar hvað best. Það eru auglýsingar í gangi, þær eru bara ekki beint í fjölmiðlunum. Það þarf ekkert að auglýsa áfengi. Það auglýsir sig sjálft.

Það væri hægt að taka það út. Hvað mundi þá sitja eftir? Það sem sitja myndi eftir er tvennt; annars vegar að einkaaðilar mættu selja áfengi. Og ef einkaaðilar mega selja áfengi fáum við fimmfalda aukningu á áfengisgjaldinu inn í lýðheilsuverkefni. Það væri hægt að færa það upp í 10% í nefndinni, eins og SÁÁ kallaði eftir.

Þannig að 10% af áfengisgjaldinu færu til þeirra allra veikustu, í meðferðarúrræði, í forvarnir, og það sem þarf að borga fyrir það, sem hægt væri að gera núna með því að fá þetta mál í nefnd, væri að einkaaðilar mættu selja og aðgengi mundi kannski aukast smá.

Ég styð það.