149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í gögnum hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni að ef aðgengi er aukið, sama hvort það er í tíma eða rými, um 10% þá eykst neyslan um 2%. Þannig er það klárlega.

Það sem ég myndi gera er setja þetta til nefndarinnar og fá svör, fá góða greiningu á því hversu mikil áhrif það hefði á aukið aðgengi í rými ef verslunarfrelsisatriðið í frumvarpinu væri samþykkt. Þá er hægt að fara að reikna hvað neyslan myndi mögulega aukast mikið og hægt að meta það á móti skaðanum sem hægt er að koma í veg fyrir hjá okkar veikasta fólki með því að fá aukið fjármagn í lýðheilsusjóð. Þetta myndi ég gera. Þetta væri ábyrgt að skoða af því að það eru mjög jákvæð áhrif af því að auka fjármagn til meðferðarúrræða og forvarna. Menn geta ekki tekið upplýsta ákvörðun fyrr en þeir eru búnir að skoða þetta í samhengi.