149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[19:04]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þeir sem eru líklegastir til að fá slíka sjúkdóma, brisbólgur, lifrarskemmdir, krabbamein o.s.frv., eru alltaf þeir sem neyta mest áfengis. Ef við erum með betri úrræði og aðgengi að þeim fyrir þetta fólk og fjölskyldur þeirra, sér í lagi fyrir fólkið sjálft, og tækifæri til að komast í meðferð þá vitum við að SÁÁ er með þann frábæra árangur að 50% þeirra sem fara í meðferð þar og ljúka henni hafa að tveim árum liðnum ekki neytt áfengis. (Gripið fram í: Ha?) Ja, þetta eru upplýsingar sem ég fékk frá forstjóra SÁÁ á sínum tíma. Kannski eru þetta ekki réttar upplýsingar, en ég fékk þær frá honum þegar við vorum að ræða þetta mál. Ég talaði persónulega við hann. Það eru upplýsingarnar sem ég fékk. Við vitum alla vega að náðst hefur frábær árangur hjá SÁÁ. Þetta er veikasta fólkið.

Hin 90% fara í dag í hítina eða til ríkissjóðs þar sem það nýtist m.a. í heilbrigðiskerfinu. Ég leggst ekki gegn því að áfengisgjaldið sem slíkt sé lækkað heldur vil að það nýtist líka þeim sem mest þurfa á því að halda, sem er það fólk sem er veikast og borgar hvað mest af áfengisskattinum. 2,5% af fólkinu neyta 26% af áfenginu og borga þar af leiðandi 26% af áfengisskattinum.