151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

lagasetning um sóttvarnir.

[13:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði um helgina að það væru vatnaskil í baráttunni við Covid. Hvað hann átti við með því verður sennilega ein af óleysanlegum ráðgátum stjórnmálanna því að á sama tíma berast fréttir af harkalegu bakslagi með tilkomu nýrra hópsmita. Við þurfum ekkert að rifja upp atburðarásina í kringum reglugerð ráðherra sem var dæmd ólögmæt. Í henni var gert ráð fyrir að skylda komufólk frá ákveðnum svæðum í nokkurra daga dvöl í sóttvarnahúsi. Í kjölfar dómsins féll ríkisstjórnin frá þessum áformum á landamærunum og virðist gæta mikillar sundrungar innan stjórnarinnar um aðgerðir þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um annað. En staðan er hins vegar þessi: Það er búið að reka ríkisstjórnina til baka með þær aðgerðir sem hún taldi áður nauðsynlegar. Landamærin eru götótt og eftirlit með sóttkví er í skötulíki. Á sama tíma boðar ríkisstjórnin frekari opnun 1. maí. Í gærkvöldi sagði Víðir Reynisson að hinar nýju eftirlitsreglur ríkisstjórnarinnar, til að mynda símaeftirlit, hefðu ekki komið í veg fyrir stöðuna sem nú er uppi. Það að skikka fólk í sóttvarnahús við komu til landsins væri langáhrifaríkasta leiðin, en fyrst reglugerðina skorti lagastoð væri nauðsynlegt að styrkja lögin. Spurningin er því sáraeinföld, hæstv. forsætisráðherra: Hyggst ríkisstjórnin gera það? Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að hægt sé að koma í veg fyrir að við fáum faraldurinn í fullan vöxt aftur og aftur?