151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

efnahagsaðgerðir.

[13:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hef komið hingað í nokkur skipti upp í pontu og rætt áhyggjur mínar af stöðu efnahagsmála. Ég hef bent á hættuna sem fylgir erlendri lántöku ríkisstjórnarinnar sem hún ákvað að fara í með mikilli gengisáhættu fyrir alla þjóðina. Við þekkjum þær afleiðingar. Við vitum líka að leið ríkisstjórnarinnar er m.a. að búa til svigrúm fyrir aukin höft. Viðreisn hefur bent á aðrar leiðir sem eru auðvitað að ráðast að rótum vandans og tengja krónuna við stöðugan gjaldmiðil.

Mig langar aðeins að ræða hér nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í þeim efnahagsþrengingum sem við erum í. Það er margt ágætt sem ríkisstjórnin hefur gert en ég held að við séum öll sammála um að það þarf að huga að m.a. skuldastöðu ríkissjóðs og hvernig við getum aflað svigrúms til að atvinnulífið geti hlaupið hraðar þannig að hagvöxtur verði á endanum alltaf meiri en vextirnir. Forsendur fjármálaáætlunar eru að vextir haldist lágir. Nú eru allir að spá því að vextir muni hækka. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 2025 dregur það líka fram að verðbólga breytist lítið og það sama gildir með gengið, að gengið muni haldast stöðugt. Það eru því auðvitað sterkar vísbendingar um að þessar forsendur ríkisstjórnarinnar muni ekki halda. Þá bregður hún á það ráð að koma hingað í þingið með það útspil að beita lífeyrissjóðum landsmanna til að fjármagna, getum við sagt, hallann frekar á ríkissjóði til lengri tíma. Og þegar við sjáum útreikningana þá er í rauninni um kjaraskerðingu lífeyrisþega að ræða.

Mig langar því að spyrja: Var í fyrsta lagi haft samráð við verkalýðshreyfinguna um þetta? Í öðru lagi: Var haft samráð við Félag eldri borgara og lífeyrisþega? Var einhugur (Forseti hringir.) um þetta mál við ríkisstjórnarborðið? Var algjör samstaða til að mynda í þingflokki Vinstri grænna um þetta mál og voru engir fyrirvarar gerðir í málinu?