151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

668. mál
[15:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessi svör og tek undir það með henni að mikilvægt er að nefndin forgangsraði í þágu þessa máls. Þó að pólitískur áherslumunur sé allt frá því að vera lítill yfir í að vera nokkur, og ekki endilega í þessu máli einu og sér heldur almennt í þessum sal, er það einkennandi fyrir þetta mál að við viljum öll gera okkar til að lýðræðið virki. Við sjáum það í kosningabaráttu síðustu ára að það er til að mynda hægt að fara inn á þann völl sem er nafnlaus áróður og mér sýnist málið vera að taka á, sem ég fagna. Ég held að ein af mínum fyrstu fyrirspurnum til hæstv. forsætisráðherra hafi verið varðandi nafnlausan áróður og ég vil taka fram að ég er ánægð með að verið sé að reyna að snerta á því án þess að gengið sé á tjáningarfrelsið. Ég held að sú leið sem farin er hér sé heppileg en ég gef mér að nefndin eigi eftir að fara yfir þetta. Ég vil fagna þessu. Að mínu mati er verið að styrkja lýðræðið með þessum breytingum og þessari tillögu og því hljótum við öll að fagna.