151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:07]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega fagna þessari umræðu. Ég held að við þurfum miklu oftar að tala um Evrópumál í þessum sal. Sá þingmaður sem hér stendur er sannfærður Evrópusinni og búinn að vera það í áratugi, ef svo má segja. Það skiptir okkur miklu máli að Íslendingar taki það skref til fulls að sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu og ég held að það eigi að vera markmið okkar. Ég veit að hv. flutningsmaður tillögunnar er sammála mér hvað það varðar en teflir fram þessari millileið eða málamiðlun á þennan hátt.

Ég geld hins gjalda varhug við þessum hugmyndum því að ég held að við séum þá að breyta svolítið víglínuumræðunni um hvort við eigum að fara þessa leið í stað fullrar aðildar að Evrópusambandinu, sem hlýtur að vera meginmarkmiðið og hlýtur að vera sameiginlegt baráttumál okkar sem erum Evrópusinnar.

Í því sambandi langar mig að fara aðeins aftur í tímann. Árið 2008 sat ég einnig á þingi og þá var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Eftir að sú ríkisstjórn var skipuð var ákveðið að setja á fót sérstaka nefnd, svokallaða Evrópunefnd, og var ég formaður þeirrar nefndar ásamt þáverandi þingmanni, Illuga Gunnarssyni. Í þeirri nefnd voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka en líka aðilar vinnumarkaðarins. Til gamans má rifja það upp að núverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sat í nefndinni. Það voru 12 einstaklingar í þessari nefnd og við skoðuðum sérstaklega þá leið sem hér er m.a. til umræðu, um hvort fært væri að hefja samstarf við Evrópusambandið á vettvangi gengismála. Við skoðuðum tvíhliða upptöku evru og sömuleiðis skoðuðum við einhliða upptöku evru. Við fórum til Brussel og er skemmst frá því að segja að viðbrögðin þar voru dræm.

Mig langar aðeins að fara yfir hvað gerðist í Brussel á þeim tíma og ég hef enga ástæðu til að halda að þetta hafi breyst hjá Evrópusambandinu. Við sem fóru til Brussel ræddum m.a. við framkvæmdastjóra efnahags- og fjármála, sem var Joaquín Almunia á þeim tíma. Við ræddum ítrekað við Olli Rehn, sem var framkvæmdastjóri stækkunarmála. Við ræddum við framkvæmdastjóra og ráðuneytisstjóra alþjóðlegra samskipta, við fórum í Seðlabanka Evrópu o.s.frv. Við reyndum að tala við þungvigtarembættismenn hvað þetta varðar. Möguleikar Íslands á upptöku evru á grundvelli tvíhliða samnings á grundvelli Evrópulöggjafar var rædd í þaula. Við skoðuðum sérstaklega þá gjaldeyrissamninga sem Evrópusambandið gerði við Mónakó og Vatíkanið og San Marínó og er skemmst frá því að segja að við fengum skýr skilaboð um að það væri ekki fyrirmynd sem Evrópusambandið myndi líta til þegar kæmi að Íslandi.

Þá var einnig skoðað hversu hratt, og þetta er áhugavert, Ísland gæti tekið upp evru eftir ESB-aðild og þá hvort Seðlabanki Evrópu gæti stutt Ísland á umsóknartímanum til að viðhalda stöðugu gengi. Svör framkvæmdastjóra ESB, sem er eins og ríkisstjórn Evrópusambandsins, voru þau að Ísland gæti orðið aðili að Evrópusambandinu innan tiltölulega skamms tíma en einungis sex mánuðum eftir aðild, og þetta eru svör frá Evrópusambandinu, gæti Ísland orðið aðili að gjaldeyrismekanismanum, ERM II, sem festi krónuna við evru með þessum 15% vikmörkum sem þá voru. Í rauninni eru til dæmi um að ríki hafi fengið aðild að ERM II einum til þremur mánuðum eftir aðild að ESB. Kom það fram í máli fulltrúa Evrópusambandsins. Þess vegna, herra forseti, var talið að Ísland gæti tekið upp evruna innan þriggja ára frá aðild, enda hefði Ísland þá verið tvö ár innan ERM II og uppfyllt að sjálfsögðu Maastricht-skilyrðin.

Varðandi umræðuna á þessum vettvangi í Brussel og víðar var rætt á vettvangi nefndarinnar að upptaka evru á grundvelli tvíhliða samnings myndi í rauninni ekki færa Íslendingum fullgilda aðild að EMU heldur yrðu afleiðingarnar sambærilegar við einhliða upptöku evru. Við fengjum t.d. ekki sæti í bankaráðinu, við fengjum ekki hlutdeild í svokölluðum myntsláttuhagnaði og ekki aðgang að Seðlabanka Evrópu sem lánveitanda til þrautavara. Það skiptir máli.

Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála, sagði okkur í nefndinni að einhliða upptaka evrunnar væri sömuleiðis ekki í anda þess góða sambands sem væri á milli Íslands og ESB og Evrópusambandið myndi ekki taka því vel ef Ísland myndi reyna að fara þá leið. Það væri enginn vilji af hálfu Evrópusambandsins til að Ísland fengi að taka upp evruna á grundvelli einhvers tvíhliða samnings. Joaquín Almunia, sem var framkvæmdastjóri efnahags- og fjármála, nefndi sérstaklega að það tæki lögfræðing Evrópusambandsins einungis 30 mínútur að komast að því að upptaka evrunnar væri bara fyrir aðildarríki Evrópusambandsins. Aðspurðir sögðu framkvæmdastjórarnir að það breytti engu þótt öll EES-ríkin myndu sameinast um að fara þessa leið, en að sjálfsögðu eru engar líkur á því eins og staðan er í Noregi. Forsvarsmenn Evrópusambandsins voru því afskaplega skýrir þegar þeir tjáðu Evrópunefndinni að örríkin í Evrópu, Mónakó, San Marínó og Vatíkanið, væru ekki fordæmi fyrir Íslendinga, enda væru þetta ríki sem hefðu haft gömlu myntir aðildarríkjanna áður en evran var tekin upp. Fulltrúar Evrópusambandsins töldu einnig að það væru helst pólitískar ástæður, og það skiptir máli, sem mæltu gegn tvíhliða samningi um evruna við Ísland. Núverandi gjaldmiðlasamningar ættu ekki að standa sem fordæmi, eins og hér hefur áður verið nefnt. ESB hefði engan hag af slíkum samningum þar sem fjármálalöggjöf á Íslandi væri nú þegar í samræmi við löggjöf ESB á grundvelli EES-samningsins og, sem er kannski stóra atriðið, að Ísland gæti enn þá orðið aðili að Evrópusambandinu. Evrópusambandið hefur ítrekað sagt íslenskum stjórnvöldum að Ísland sé svo sannarlega velkomið í þann hóp.

Mér fannst þetta áhugavert tækifæri til að rifja upp þau svör sem við fengum á sínum tíma varðandi svona gjaldeyrissamstarf. Auðvitað er það mjög freistandi. Einn helsti kostur við aðild að Evrópusambandinu fyrir Ísland er evran, ég átta mig alveg á því. Íslenska krónan er handónýtur gjaldmiðill og sagan sýnir það. Við skulum ekkert draga fjöður yfir það. Íslenska krónan er dragbítur á íslenskt atvinnulíf og er mjög kostnaðarsöm fyrir íslensk heimili, það vita allir sem fylgst hafa með íslenskri hagsögu.

Ég vil ekki að rífa þessa umræðu í sundur. Ég vil ekki að umræðan fari að snúast um: Já, við skulum reyna að fara þessa málamiðlunarleið, taka upp evruna, hvort sem það er á einhliða eða tvíhliða vettvangi einhvers gengisvarnasamnings. Tökum frekar umræðuna sem ég veit að næsta þingmál hv. þingmanns er um, að hefja aðildarviðræður aftur við Evrópusambandið, og stefnum að fullri aðild að því.

Herra forseti. Það er hvorki tilviljun né heimska að nánast allar þjóðir Evrópu telja sig eiga heima í Evrópusambandinu. Það er bara byggt á köldu hagsmunamati og kostirnir eru ótvíræðir að mínu mati. Í stuttu máli, svo ég rifji upp, það er langt síðan ég hef haldið Evrópuræðu hér, eru helstu kostir Íslands við aðild að ESB og upptöku evrunnar aukinn stöðugleiki. Það er lægra matvælaverð. Það eru lægri vexti til lengri tíma. Það er minni gengisáhætta og gengissveiflur. Það er minni verðbólga. Það eru auknar erlendar fjárfestingar og þar með aukin samkeppni. Það er sanngjarnara landbúnaðarkerfi fyrir bæði neytendur og bændur. Það eru aukin áhrif á reglur sem taka núna gildi vegna EES. Við erum mjög dugleg í þessum sal að stimpla reglugerðir frá Evrópusambandinu án þess að hafa neitt um það að segja hvernig þær eru gerðar. Aðild að Evrópusambandinu hefði í för með sér minni viðskiptakostnað, bætt félagsleg réttindi, enga almenna verðtryggingu að sjálfsögðu o.s.frv. En síðan, herra forseti, má ekki gleyma því stóra atriði að Íslendingar eru evrópsk þjóð sem á heima í samfélagi annarra Evrópuþjóða. Þetta eru samstarfsþjóðir okkar til árhundruða og þangað eigum við að leita með hagsmuni okkar og hagsmunagæslu. Þetta er fjölskylda okkar. Það er allt sem mælir með aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er efnahagslegur stöðugleiki, efnahagslegur uppgangur, það eru áhrif á eigið samfélag. En svo er það líka að tilheyra þessari fjölskyldu Evrópuþjóða.

Herra forseti. Það er ótrúlega dapurlegt að stórfyrirtækin í þessu landi, hvort sem það er í sjávarútvegi eða öðru, eða auðmenn þessa lands, eru þau einu sem geta tryggt hagsmuni sína með því að gera upp í evrum eða dollurum. Á meðan eru íslensk heimili látin súpa seyðið af sveiflugjörnum gjaldmiðli sem kallar á gengisfellingar. Það eru meira að segja til ráðherrar í þessari ríkisstjórn sem telja gengisfellingar vera skynsamlega hagstjórn. Við megum aldrei gleyma því að gengisfellingar gerast alltaf á kostnað almennings. Með gengisfellingum erum við að rýra gildi og virði gjaldmiðilsins sem verðmæti okkar (Forseti hringir.) eru fólgin í. Þetta er því gríðarlega stór spurning og við sem erum Evrópusinnar, sama hvar í flokki við erum, þurfum að einhenda okkur í þá umræðu sem fram undan er og sannfæra þjóðina um kosti Íslands að Evrópusambandinu því að þeir eru ótvíræðir að mínu mati, herra forseti.