151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram hafa komið, m.a. í Peningamálum Seðlabankans, vísbendingar um að krónan sé sveifluaukandi en ekki sveiflujafnandi og umframgengissveiflur íslensku krónunnar séu meiri en að jafnaði hjá öðrum OECD-ríkjum og því geti sveifluaukandi áhrif gengis krónunnar verið meiri að jafnaði en hjá öðrum þróuðum ríkjum. Það þýðir bara auknar álögur á heimilin. Vextir hafa lækkað, blessunarlega, en samt er erum við með þrisvar til fimm sinnum hærri vexti hér á Íslandi en annars staðar. Við erum með miklu meiri verðbólgu en nokkurs staðar annars staðar í kjölfarið á veirufaraldrinum.

Síðan veltir maður fyrir sér skilaboðunum sem seðlabankastjóri sendi versluninni. Þau voru að mínu mati nokkuð skýr, hann sagði: Lækkið vöruverð, kæra verslun, eða Seðlabankinn hækkar vextina. Það voru nokkurn veginn grunnskilaboðin sem komu frá seðlabankastjóra um daginn. Ég segi: Ef við værum með stöndugan gjaldmiðil þyrfti Seðlabankinn ekki að beita sér með þessum hætti gagnvart einni atvinnugrein umfram aðrar því að þá væru vextir lágir og vöruverð væri sjálfkrafa líka lágt.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Af hverju er verðbólga hærri hér, átta sinnum hærri en í Danmörku á veirutímum?

Ein af helstu röksemdafærslum m.a. Sjálfstæðisflokksins fyrir því að við höfum íslenska krónu hefur alltaf verið sú að þá verjumst við því að upp gjósi atvinnuleysi. Ég geri mér grein fyrir því að veiran bitnar mest á ferðaþjónustunni en samt erum við að upplifa mesta atvinnuleysi í sögu þjóðarinnar og langtímaatvinnuleysi er að aukast þrátt fyrir krónuna.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann: Af hverju gera stórfyrirtæki, að mig minnir sex af tíu stærstu fyrirtækjunum í sjávarútvegi, upp í erlendri mynt? Af hverju gera stærstu fyrirtækin í iðnaði upp í erlendri mynt? Af hverju þarf almenningur að sitja uppi með íslensku krónuna meðan íslensk stórfyrirtæki geta gert upp í erlendri mynt?