Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

hlutafélög o.fl.

585. mál
[18:44]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það verður ánægjulegt að sjá þær tölur ef ráðuneytið getur útvegað þær. Ég er hjartanlega sammála ráðherra um að það er mjög mikilvægt að við höfum aðgengi að ársreikningunum. Það var einmitt það sem mig langaði að spyrja um í seinni spurningunni. Í 7. gr. frumvarpsins er sagt að skila skuli ársreikningum og samstæðureikningum á rafrænu formi til ársreikningaskrár. Það var stigið stórt skref, ef ég man rétt annaðhvort á þessu ári eða síðasta, þar sem veittur var kostnaðarlaus aðgangur að ársreikningaskrá og er mjög mikilvægt að geta skoðað vel og farið djúpt ofan í ársreikninga fyrirtækja. En þar sem verið er að breyta þessu yfir á rafrænt form langar mig að spyrja hvort markmiðið sé að hægt sé að nálgast þetta á rafrænan máta vegna þess að í dag færðu pdf-skjal. Gallinn við pdf-skjöl er sá að það er erfitt að vinna sjálfvirkt gögn upp úr slíkum skjölum á meðan það er mjög auðvelt þegar þau eru á rafrænu formi sem er búið að skilgreina. Þannig að mig langaði bara að heyra frá hæstv. ráðherra hvort planið væri að gera þetta rafræna form aðgengilegt þannig að hægt verði t.d. að vinna með tölvum og öðru gögn upp úr ársreikningaskrá.