152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

ákvörðun nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn o.fl.

463. mál
[20:04]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta utanríkismálanefndar fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og fella inn í samninginn hina svokölluðu BEREC-reglugerð 2018/1971 sem kemur á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila á sviði rafrænna fjarskipta og stofnun til að styðja við BEREC-hópinn. Jafnframt er felld inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2018/1972 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti, eins og kemur fram í nefndaráliti sem liggur frammi.

Þá óskaði nefndin á fyrri stigum eftir áliti umhverfis- og samgöngunefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem gerðu ekki athugasemdir við upptöku BEREC-reglugerðirnar í EES-samninginn. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti í utanríkismálanefnd til að þingsályktunartillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Diljá Mist Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Friðrik Friðriksson, Logi Einarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir. Gísli Rafn Ólafsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.