152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

ákvörðun nr. 274/2021 um breytingu á XI. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn o.fl.

463. mál
[20:06]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir góða framsögu á þessu máli. Það er tvennt sem er í þessu máli sem er gott að hafa í huga. Í fyrsta lagi er verið að auka samvinnu og samstarf milli eftirlitsstofnana innan Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna á sviði fjarskipta. Það er mikilvægt þar sem mikið af þeirri tækni sem við erum að vinna í núna er tækni sem hefur áhrif þvert á landamæri. En það er líka athyglisvert að í þessari tilskipun er gefið leyfi til þess að semja um hámarkskostnað á millilandasímtölum og SMS-um. Við höfum öll notið góðs af reikiþjónustu innan EES á undanförnum árum. Nú þegar maður ferðast til Evrópulandanna er enginn aukakostnaður við að nota símann sinn þar. Með þessari þingsályktuartillögu er líka verið að tækla kostnaðinn við að hringja á milli landa innan EES og er það mjög ánægjulegt. Vonandi verður það jafn ódýrt að hringja hvert sem er í Evrópu og það er að hringja hvert sem er á Íslandi.