Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

ákvörðun nr. 171/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

500. mál
[20:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir góða framsögu á þessu máli, enn og aftur Evrópusambandsreglugerð sem kannski hljómar dálítið flóknari en hún raunverulega er. Í henni er verið að tryggja aðgengi almennings að svokölluðum greiðslureikningum, en það eru einfaldlega bankareikningar sem hægt er að nota til að framkvæma greiðslur. Með því að innleiða þessa reglugerð er verið að auðvelda aðilum að bjóða upp á slíka þjónustu þvert á landamæri. Það er mikilvægt atriði fyrir land eins og Ísland þar sem fákeppni ríkir á bankamarkaði.

Þetta auðveldar einnig fólki að flytja milli landa. Eitt af því sem hefur oft verið vandamál þegar fólk flytur á milli landa er að geta opnað bankareikning í því landi sem það flytur til. Það er hluti af tilskipuninni þannig að það auðveldar aðgengi að bankaþjónustu í nýju landi.

Eins og kom fram er ég samþykkur þessu áliti og mæli með því að það verði samþykkt, enda felur það í sér réttarbót og betri þjónustu fyrir neytendur.