152. löggjafarþing — 80. fundur,  24. maí 2022.

evrópskir áhættufjármagnssjóðir og evrópskir félagslegir framtakssjóðir.

244. mál
[23:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur fyrir framsögu nefndarálitsins. Mig langaði að koma hingað upp og lýsa því yfir að ég tel að það sé mjög mikilvægt að við séum að setja þetta regluverk. Við höfum þegar tekið fyrir reglugerðina sem kom frá Evrópusambandinu um þetta. Ég ræddi að það er mjög mikilvægt, sérstaklega varðandi þessa félagslegu framtakssjóði, að það sé gott regluverk í kringum þá vegna þess að á þeim tímum sem við lifum er fjárfestingarumhverfið að breytast mikið og það til hvers fjárfestar horfa. Nýjar kynslóðir, yngra fólk, vilja að ekki sé bara verið að fjárfesta í hlutum sem skapa gróða heldur líka í hlutum sem skila samfélaginu einhverju og að það séu sjóðir sem hugsi um samfélagslega ábyrgð þegar þeir gera sínar fjárfestingar. Gott dæmi um þetta er að vera með sjóði sem fjárfesta t.d. ekki í olíu eða öðrum slíkum mengandi iðnaði. Þá er gott að það sé til regluverk sem hjálpar okkur að skilgreina hvað það er í rauninni að vera félagslegur framtakssjóður: Í hverju mega slíkir sjóðir fjárfesta og hvað eiga þeir að vera samfélaginu og því umhverfi og því svæði sem þeir vinna í? Hvernig geta þeir tryggt að verið sé að horfa í réttar áttir? Það hafa svo sem komið upp ábendingar varðandi það að Evrópusambandsskilgreiningin á því hvað er samfélagslega gott og ekki gott sé kannski aðeins of víð enn þá. En ég treysti á að ef einhver göt eru í þeim skilgreiningum þá verði þau löguð sem fyrst. Það er von mín að við sjáum einmitt svona félagslega, evrópska framtakssjóði koma hingað til lands eða að þeir séu stofnaðir hér á landi og að þessir sjóðir séu að horfa á það að fjárfesta í hlutum sem skila okkur ekki bara gróða í peningum heldur líka því hvernig við hugsum um umhverfið, hugsum um samfélagið og það hvernig framtíðin mun verða fyrir þær kynslóðir sem erfa það eftir okkur. Það er von mín að þetta fari, eins og annað, hratt í gegn vegna þess að þetta er frumvarp af hinu góða sem mun gera góða hluti, ekki bara fyrir fjárfesta heldur umhverfið og samfélagið.