153. löggjafarþing — 80. fundur,  14. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða hlutverk okkar þingmanna þjóðkjörinna. Okkar meginhlutverk, er það ekki einmitt að skapa hér enn betra, réttlátara og kærleiksríkara nútímalegt samfélag þar sem allir njóta sannmælis og allir fá að njóta þeirra gæða sem okkur hafa hlotnast í okkar ríka landi? Ég velti því stundum fyrir mér hvort við séum nógu dugleg við að staldra við og ígrunda hvers lags fyrirmyndir við hér í þessum sal erum þeim sem fylgjast með störfum okkar í beinni útsendingu dag eftir dag og hvort við verjum nægilegan tíma til þess einmitt að staldra við og ígrunda störf okkar og hugarþel og það sem við setjum frá okkur og ræðum — grunnatriðin sem okkur er treyst fyrir. Við eigum að leiða hér samfélagið til betri vegar og ég hefði kosið að við stöldruðum oftar við og ræddum nákvæmlega það, því að eftir höfðinu dansa limirnir, bæði í hugarfarinu, starfsháttunum og hvernig við náum að höndla það sem okkur er falið að gera.

Ég fyrir minn smekk tel að hér mætti einmitt koma á fót reglubundnum dagskrárlið sem væri um þetta, og þá kannski með því að gera einhvers konar hagræðingu á þeim tíma sem er varið í liði eins og störf þingsins þar sem við getum mælt úr stóli, við gætum sparað helminginn af tímanum sem við fáum hér, tvær mínútur.

Mér finnst stemningin í þessum sal of oft vera einhvers konar saksóknarastemning, eins og maður sé staddur fyrir dómstólum og það eigi að reyna að ná í skúrkinn og refsa honum. Það er hlutverk dómstólanna, finnst mér, (Forseti hringir.) en ekki endilega okkar.

Ég ætla að endingu að segja að sr. Friðrik Friðriksson var minn fasti heimilisgestur á æskuheimilinu og blasti við mér á Hlíðarenda í skólanum (Forseti hringir.) og á Valsvellinum: Lát eigi kappið bera fegurðina ofurliði. Höfum það hugfast í okkar störfum.