154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[14:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað ekki svo að neitt samráð hafi átt sér stað í neinum bakherbergjum en það á sér stað í gegnum samráðsgátt Stjórnarráðsins. Það er því ekki mikið ógagnsæi þar, sem hv. þingmaður talaði um sem eitthvert baktjaldamakk, heldur er þetta allt afskaplega opinbert. Það verður að segjast, af því að við erum auðvitað að reyna að miða við löggjöf annarra landa í kringum okkur um uppbyggingu þessa frumvarps, að við erum hér að leggja til að tilgreind auðlindanýting í þjóðlendum sé skilgreind sem viðkvæmt svið. Það gera til að mynda ekki önnur Norðurlönd, það er eingöngu Svíþjóð sem tiltekur tilteknar auðlindir í sinni löggjöf. Þetta gera ekki önnur Norðurlönd. Ég ákvað hins vegar að leggja þetta til vegna þess að auðlindirnar hafa mjög mikilvæga þýðingu fyrir okkar íslenska hagkerfi. Ég lagði fram frumvarp um takmarkanir á kaupum á landi, sem hv. þingmaður nefnir hér aftur og hann þekkir væntanlega þá löggjöf, þannig að við teljum að hún sé aðeins undir öðrum lögmálum en þessi tilteknu svið og það er löggjöf sem hefur skipt verulega miklu máli við samþjöppun lands á fáar hendur sem var orðin allt of mikil. En hér erum við að leggja til tilgreinda auðlindanýtingu í þjóðlendum, sem er alls ekki það sem öll Norðurlöndin gera en Svíþjóð tilgreinir, eins og ég sagði, tilteknar auðlindir og telur þær upp.

Síðan vil ég vekja athygli hv. þingmanns á því að í bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að innan tveggja ára skuli ráðherra afhenda Alþingi skýrslu um framkvæmd laganna. Þar á að setja fram afstöðu ráðherra til þess hvort rök standi til þess að þessi afmörkun sem við leggjum hér til eftir alla þessa vinnu verði breytt til þrengingar, rýmkunar eða að hún haldist óbreytt, m.a. að teknu tilliti til reynslu af framkvæmd laganna, þróunar öryggisumhverfis á Íslandi og í nágrannaríkjum sem og réttarþróunar erlendis. Eins og ég sagði í minni framsöguræðu þá er þetta þannig löggjafarsvið að við eigum von á því að það taki breytingum og við þurfum að fylgjast með þróun annars staðar. En þetta er ástæðan fyrir því að við leggjum þetta fram með þessum hætti hér.