131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:21]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson kemst ekki undan því að hafa haft í hótunum við þá rekstraraðila sem ætla að reka hinn nýja háskóla. Hann lýsti því beinlínis yfir að ef Samfylkingin (EMS: Þegar.) kæmist til valda í menntamálaráðuneytinu yrði lagasetningarvaldinu beitt gagnvart þeim aðilum sem ætla að reka hinn nýja háskóla. Þetta er algjörlega í takt við málflutning Samfylkingarinnar. Samfylkingin er á móti sameiningu þessara tveggja háskóla. Hún er á móti hinum nýja háskóla. Ef Samfylkingin væri hlynnt þessari nýju menntastofnun og sameiningunni hefði það komið fram í nefndaráliti fulltrúa Samfylkingarinnar. En þeir treystu sér ekki til að lýsa því yfir að þeir væru sammála þessum samruna, styddu þennan háskóla og styddu þessa sameiningu. Það kemur hvergi fram í nefndarálitinu. Það getur hv. þingmaður lesið.