136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

aðild að ESB.

[10:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Varðandi sigrana sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið í Evrópumálum mætti kannski nota orð skáldsins sem sagði að sigrarnir ynnust allir á undanhaldinu. (Gripið fram í: … svara spurningunni?) Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á stöðugri hringferð og undanhaldi í Evrópumálum.

Ég hef aldrei sagt að Samfylkingin hafi unnið neina stórsigra í Evrópumálunum. (Gripið fram í.) Það sem ég hef hins vegar sagt er að frá sjónarhóli Samfylkingarinnar náðist með stefnuyfirlýsingunni það sem ég vil kalla tvö hænufet, ekki meira, en það náðist ekkert hænufet (Gripið fram í.) með Sjálfstæðisflokknum. Það eina sem náðist fram þar var að settur var á laggir tvíhöfða þurs, svokölluð Evrópunefnd. Það var það eina sem Sjálfstæðisflokkurinn treysti sér til að gera.

Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn logar í illdeilum og fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur sagt það tveimur sinnum opinberlega (Forseti hringir.) að það sé hætta á því að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði vegna ágreinings um Evrópumálin. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórntækur. Hann kann hins vegar að (Forseti hringir.) verða það.

Herra forseti. Hann þarf virkilega að taka sig á til að verða það aftur.