136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

fjármálafyrirtæki.

90. mál
[15:00]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held einmitt að þær breytingar sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir minntist á varðandi sparisjóðina, sem voru gerðar til að gera þeim kleift að elta meir hina einkavæddu og hlutafélagavæddu banka, hafi kannski verið misráðnar eða hafi farið fram með þeim hætti að það hafi ekki þegar til lengdar er litið verið þeim til hagsbóta á allan hátt. Ég er ekki sammála því að allir sparisjóðir hafi verið hrifnir af þessum breytingum, það er síður en svo.

Í ljósi hinnar döpru reynslu sem við höfum af því hvernig fjármálafyrirtækin, bankarnir og ýmsir þeir sparisjóðir sem fetuðu sömu braut og bankarnir, fóru að leika hlutafélagavædda banka þó að þeir væru það alls ekki — það hefur orðið þeim til óheilla og við stöndum nú frammi fyrir bankahruni sem varð vegna þess að allt of geyst var farið og án þess að þarna væri regluverk. Farið var fram á þeim hugsjónagrunni að menn skyldu græða það sem þeir gætu grætt og fá hámark arðsins af fjármagninu.

En það er rétt hjá hv. þingmanni, frumvarpið er fyrst og fremst um það að sparisjóðir fái einkarétt á því að heita sparisjóðir, þeir sem starfa samkvæmt þeim grunnhugsjónum. Aðrir sparisjóðir sem velja að breyta sér í hlutafélagabanka heiti þá ekki lengur sparisjóðir, hafi það orð ekki í heiti sínu. Menn skulu ekki sigla undir fölsku flaggi heldur skal sparisjóður vera sparisjóður og hlutafélagavæddur banki skal vera hlutafélagavæddur banki og starfa samkvæmt því.