138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

útboð Vegagerðarinnar.

237. mál
[15:00]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þær fréttir að búið sé að senda í útboð 6,5 km kafla af tvöföldun á Suðurlandsvegi, frá Skíðaskálanum og vestur í átt að Reykjavík, voru gríðarlega stórar og góðar fréttir. Þetta er eitt stærsta og mikilvægasta umferðaröryggismál Íslendinga allra. Þetta er fjölfarnasti og slysaþyngsti vegur utan þéttbýlis á landinu og öllu skiptir að breikka veginn og skilja á milli akreina og koma þannig í veg fyrir hin alvarlegu og tíðu og hörmulegu slys. Því eru það mjög alvarlegar fréttir að bæjaryfirvöld í Kópavogi hafi stöðvað útboðið með því að gefa ekki út framkvæmdaleyfi. Þar með væru þeir að mínu mati að misbeita valdi sínu og ég trúi því ekki að þeim gangi það til og ætla þeim það ekki. Ég skora á meiri hluta sjálfstæðis- og framsóknarmanna í Kópavogi að endurskoða þessa ákvörðun tafarlaust, þannig að þeir komi ekki í veg fyrir það að útboð á 6,5 km kafla tvöföldunar á Suðurlandsvegi fari af stað núna, eins og hæstv. samgönguráðherra sagði áðan, annars er þeim sökin ein sú seld að bjóða út eitthvert annað verk. Ég skora á bæjaryfirvöld að láta þetta ekki ganga svona fram.