138. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2010.

fatlaðir í fangelsum.

266. mál
[15:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanliðnum mánuðum hefur komið fram með ýmsum hætti hversu illa við Íslendingar búum að föngum þessa lands. Sá sem hér stendur hefur rætt við fangelsismálayfirvöld um þetta efni og yfirmenn þar fullyrða að komið sé að öryggismörkum hvað varðar fanga hér á landi og aðbúnað þeirra. Nú eru um 133 rými til refsivistar hér á landi en nýtingin er um 110% í fangelsunum samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun. Um það bil 240 manns bíða eftir að geta tekið út refsivist sína hér á Íslandi og miðað við þau þrengsli sem eru í fangelsunum, frú forseti, mun biðlistinn telja 500 manns eftir ár ef ekkert hefur verið að gert.

Nú er það svo og það er augljóst að staða fanga er afskaplega misjöfn þegar kemur að því að taka út refsivist. Fangar eru eins og annað fólk með ýmsum hætti og af ýmsum þroska en samkvæmt minni vitneskju eru fangelsin á Íslandi með þeim hætti að þar er öllum komið fyrir í eina og sama pottinum, hvað svo sem heilsufari þeirra viðvíkur.

Samkvæmt upplýsingum frá sálfræðingum á Fangelsismálastofnun hafa á árabilinu 2004–2009 u.þ.b. 35 einstaklingar verið vistaðir í fangelsum Íslands, innan um hefðbundna fanga, sem ættu ekki að vera í venjulegum fangelsum heldur búa á geðdeild eða tilheyra svæðisskrifstofum fatlaðra í byggðarlögum sínum, að meðaltali sex á ári samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun.

Ég spyr því dómsmálaráðherra, sem jafnframt er mannréttindaráðherra, hvort þetta sé við hæfi. Á hvern hátt á að koma til móts við sérþarfir fatlaðra í fangelsum, hvort heldur þeir búa við þroskahömlun, þroskafrávik, geðfötlun eða líkamlega fötlun? Ljóst er að ástand þessa málaflokks nú um stundir jaðrar við mannréttindabrot.