140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:03]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að bæta einni spurningu við. Hér var settur á fót þjóðfundur og hugmyndin með honum var sú að þar væri hægt að spyrja og fá upplýsingar hjá stórum hópi þjóðarinnar um tiltekin stjórnskipuleg efni. Það má svo sem segja að í raun sé búið að fara í það ferli og því þurfi ekki að gera sérstaka skoðanakönnun samhliða forsetakosningunum á þessu ári. Í niðurstöðum þjóðfundarins kom fram, og það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, að vilji fundarins var að jafna atkvæðin.

Við vitum að þetta er mjög viðkvæmt mál og ég er sjálf þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að halda kjördæmaskipaninni og gæta að stöðu landsbyggðarinnar þegar litið er til endurspeglunar á Alþingi. En þetta var niðurstaða þjóðfundarins. Hins vegar er það niðurstaða stjórnlagaráðsins að halda kjördæmaskipaninni. Engu að síður er spurning um þetta mál á spurningalistanum. Af hverju skyldi það vera? Hvaða ástæðu telur þingmaðurinn vera til þess að þeir sem um málið véla vilji engu að síður spyrja um hvort jafna eigi atkvæðisréttinn?