141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Í gær var haldinn sameiginlegur fundur allsherjar- og menntamálanefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um Bjarmalandsför bandarísku alríkislögreglunnar til Íslands árið 2011. Margvíslegt kom fram á þeim fundi sem skiptir mjög miklu máli, en ég get þó ekki orða bundist, frú forseti, vegna þess að síðdegis í gær var viðtal við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur á Bylgjunni. Hún á sem kunnugt er sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og sat umræddan fund. Hv. þingmaður lét meðal annars hafa eftir sér í þessum útvarpsþætti, með leyfi forseta, orðrétt:

„Þannig að ég skil ekki þessa panik og þessa taugaveiklun af hálfu þessara ráðherra og ég segi að það tengist kannski ekki bara þessari Kanafóbíu þeirra, heldur hugsanlega þessum stjórnmálum hérna heima og stuðningi kannski Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina.“

Frú forseti. Þessi ummæli eru fullkomin rökleysa og dylgjur af hálfu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Alríkislögreglan kom hingað í júní, júlí og ágúst 2011. Hreyfingin átti í viðræðum við ríkisstjórnina í desember 2011 og janúar 2012 um hugsanlegt samstarf sem varð svo að engu. Hér dylgjar þingmaðurinn því algjörlega rakalaust og opinberlega í fjölmiðlum um aðkomu Hreyfingarinnar að því að FBI hafi verið vísað úr landi.

Þetta er mjög alvarlegt mál, hún vegur að mannorði tveggja hæstvirtra ráðherra, þeirra Ögmundar Jónassonar og Össurar Skarphéðinssonar, sem og þingmanna Hreyfingarinnar með mjög ámælisverðum dylgjum. Það er sjálfsagt að hv. þm. Þorgerður Katrín biðjist afsökunar á (Forseti hringir.) bulli sínu um tvo ráðherra …

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmann um að nefna þingmenn fullu nafni.)

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætti að biðjast afsökunar á bulli sínu um þessa ráðherra og þessa þingmenn eins og hún talaði í útvarpinu í gær. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það ætti kannski frekar fyrir hv. þingmanni að liggja að greiða til baka eitthvað af þeim 1.700 milljónum (Forseti hringir.) sem hún og eiginmaður hennar hafa fengið afskrifaðar (Forseti hringir.) [Háreysti í þingsal.] áður en hún fer að breiða út ósannindi og (Forseti hringir.) dylgjur um (Forseti hringir.) aðra þingmenn í þingsal. Þetta er algjörlega ósæmilegt (Forseti hringir.) og hún má skammast sín fyrir það. (Gripið fram í.)