141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fram undan er framhald á 2. umr. um frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Fyrir liggur að til landsins hefur borist álit svokallaðrar Feneyjanefndar. Það er ekki enn búið að dreifa því áliti til okkar þingmanna á íslensku (Gripið fram í.) og ég er þeirrar skoðunar að það sé engin ástæða til að keyra inn í kvöldfundi nema þá að einu gefnu, virðulegi forseti, því að þá liggi fyrir að stjórnarliðar ætli sér að taka þátt í umræðunni. Það sem hefur gerst hér er að við höfum farið inn í kvöldfundi í umræðu um mörg mikilvæg mál en um þetta mál, um stjórnarskrána, gengur ekki að hér standi stjórnarandstæðingar helst, (Forseti hringir.) tali um málið og ekki fari fram nein umræða.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Nú hafa komið fram verulega mikilvæg ný gögn um málið en þá er líka krafa okkar að hér fari fram einhver umræða. (Forseti hringir.)

Ég segi nei við þessu, virðulegi forseti.