141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ólíkt er þessi umræða mikilvægari en umræðan um fundarstjórn forseta og full ástæða til að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka málið á dagskrá og líka þá áherslu sem lögð hefur verið á þverpólitíska samstöðu hér í þinginu um þessi málefni, enda um stærstu og mestu fjárhagslegu hagsmuni þjóðarinnar að tefla, þá sem nú er við að fást.

Þeir bankar sem féllu árið 2008 voru gríðarlega stórir í okkar litla hagkerfi. Jafnvel þó að þeir hafi orðið gjaldþrota eru þrotabú þeirra meira að segja gríðarlega stór í okkar hagkerfi og raunar ein og hálf landsframleiðsla sem þar liggur inni af eignum. Þau voru því miður undanþegin lögum um gjaldeyrishöft þegar þau voru sett á útmánuðum 2008, en með frumvarpi til laga, sem flutt var 12. mars á síðastliðnu ári af hv. efnahags- og viðskiptanefnd, tókst þinginu að gera ráðstafanir til þess að búin heyrðu líka undir höftin. Það er hverjum manni ljóst, sem skoðar stærðirnar í þessum málum, að vandi aflandskrónueigendanna, vandi þrotabúanna og vandi íslensku þjóðarinnar með gjaldeyrishöftin eru allt saman svo stór mál að þau verða ekki leyst öðruvísi en saman.

Þessir þrír aðilar standa nú frammi fyrir því að tækifæri er til þess að setjast yfir það með hvaða hætti megi hugsanlega býsna skjótt vinna úr stöðu allra aðila. Það verður ekki gert nema með eftirgjöf. Að öðrum kosti er hættan sú að til talsvert langs tíma þurfi bæði þeir sem hér eiga krónur, þeir sem eru haghafar í þrotabúunum og síðast en ekki síst íslenskur almenningur og fyrirtæki að búa um langt skeið við það að hafa eignir sínar læstar inni í höftum.