141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þetta mál hefur verið fyrirferðarmikið í orðræðunni á þessu kjörtímabili og mig langar að byrja á því að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að við ættum, nú þegar örfáir þingdagar eru eftir af kjörtímabilinu, að forgangsraða störfum þingsins á annan hátt í stað þess að ræða um þetta viðamikla mál sem ekki er nærri því tilbúið til afgreiðslu í þinginu. Nóg um það.

Málið er hér fram komið og til umræðu en ég tel að það sé ekki fullbúið. Það liggja fyrir margvísleg gögn sem ég er að reyna að koma fyrir hér hjá mér í pontunni, frumvarpið sjálft og breytingar á því og það fylgir viðamikið nefndarálit. Til að reyna að átta sig á stöðunni núna og hafa einhverja yfirsýn yfir þetta er nauðsynlegt að hafa breytingaskjalið, breytingartillögur meiri hlutans, uppi við og það er svo sem ágætt.

Frú forseti. Upphaflega kom fram frumvarp um þetta mál og við 2. umr. voru lagðar til talsverðar breytingar á því. Ég sit í velferðarnefnd og milli umræðna voru ýmis ákvæði málsins send til umsagnar í allar nefndir þingsins og þær nefndir sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taldi að þau ættu undir.

Það var fullyrt í umræðunni áðan að meiri hluti og þorri landsmanna biði eftir því að ný stjórnarskrá yrði samþykkt og það væri mikill áhugi á því að fá nýja stjórnarskrá. Ég tel þá fullyrðingu ekki standast. Ég tel enga stemningu fyrir því að umbylta allri stjórnarskránni. Mér finnst sú vinna sem fór fram í velferðarnefnd þar sem við vorum með fá ákvæði undir en mikilvæg engu að síður, um félagafrelsi og fleira, lýsa best þeirri stöðu. Með tilliti til ábendinga þeirra umsagnaraðila sem komu í heimsókn til okkar í nefndinni og fóru yfir það sem þeir töldu helstu álitaefni var alveg ljóst að það hafði ekki verið mikill ágreiningur um flest þau ákvæði í núgildandi stjórnarskrá sem við höfðum til umsagnar. Tel ég því algjöran óþarfa að vera að breyta orðalagi þeirra, færa til o.s.frv.

Ég held að hv. þm. Helgi Hjörvar hafi hitt naglann á höfuðið áðan í ræðu sinni, þótt hann talaði svolítið í hringi, þegar hann sagði að við ættum að einbeita okkur að þeim atriðum sem helst hafa valdið einhverjum efa í hugum landsmanna og þeirra sem starfa á þingi að undanförnu, t.d. ákvæðum varðandi forseta Íslands og einnig hefur mikið verið rætt um auðlindirnar. Ég sé ekki að nokkur þörf hafi verið á því að breyta ýmsum þeim ákvæðum í núgildandi stjórnarskrá sem engin deila hefur staðið um og ekki nokkur maður hefur kvartað yfir að væru óskýr. Það kom fram hjá þeim fjölmörgu umsagnaraðilum sem komu til okkar í velferðarnefnd að þó að menn gætu kannski skilið orðalag þeirra ákvæða sem væri verið að leggja fram þá var það þannig að um leið og menn fóru að lesa greinargerðina með fór allt í hringi og menn áttuðu sig engan veginn á því hvað ákvæðin mundu þýða ef þau yrðu lögfest á þingi.

Frú forseti. Þetta er viðamikið mál og erfitt að ákveða sig á þeim stutta tíma sem maður hefur hér til umráða hvaða ákvæði maður vill ræða. Fjölmargir þingmenn hafa talað almennt um málið og reynt að ná einhverri heildaryfirsýn yfir það vegna þess að ekki virðist hafa verið lögð mikil áhersla á að reyna að meta það heildstætt. Það er ágætt, en ég ætla að reyna að einbeita mér í fyrri hluta ræðu minnar að einu ákveðnu ákvæði frumvarpsins sem er 113. gr. þar sem fjallað er um stjórnarskrárbreytingar.

Við þekkjum ákvæðin um það hvernig breyta má núgildandi stjórnarskrá. Tvö þing þurfa að samþykkja stjórnarskrárbreytingar og það er erfitt að breyta stjórnarskránni. Það er vegna þess að þær kenningar hafa verið ríkjandi í stjórnskipunarrétti að ekki eigi að vera auðvelt að breyta stjórnarskrá. Ég er sammála því grundvallarsjónarmiði. Þau ríki sem búa við stjórnarskrárbundið lýðræði og hafa skráða stjórnarskrá eru jafnan með þannig reglur að vandað er mjög til þess hvernig eigi að setja stjórnarskrá og hvernig hægt sé að breyta henni. Þeim ákvæðum og stífu reglum um hvernig breytingar eigi að fara fram, þegar þær geta farið fram, er ætlað að stuðla að því að það náist samstaða og sátt — sem mönnum hefur verið tíðrætt um í þessum sal — meðal þjóðarinnar um þær breytingar. Það er vegna þess að þetta eru grundvallarreglur ríkisins og það á að reyna að hafa þær þannig að sem flestir geti samsamað sig þeim. Þess vegna á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá og það er erfitt að breyta stjórnarskrá í flestöllum stjórnarskrárbundnum lýðræðisríkjum.

Á stjórnarskrána er yfirleitt litið sem klettinn í hafinu, grunninn að því hvernig ríkið virkar og kjölfestu samfélagsins. Það má aldrei verða þannig að slík kjölfesta sé þeim annmörkum háð að hún sveiflist til og frá eftir því hvernig stemningin er þann daginn í samfélaginu. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa reglurnar stífar. Það á ekki að vera þannig að lítill ráðandi þingmeirihluti á hverjum tíma eða minni hluti kjósenda geti stjórnað því að veigamiklar stjórnarskrárbreytingar séu gerðar.

Almennt er það þannig að stjórnarskráin er rammi, hún er grunnur. Stjórnarskrár eru oft betri eftir því sem eru styttri vegna þess að stjórnarskráin á að sýna okkur þær meginreglur sem löggjafinn á að vinna eftir og byggja á allar sínar ákvarðanir varðandi lagasetningu. Þess vegna er gott að stjórnarskrá sé stutt og hnitmiðuð, vegna þess að ef hún er ítarleg og löng er hún ekki nægilega sveigjanleg. Í stjórnskipunarrétti okkar hafa jafnframt mótast stjórnskipunarvenjur vegna þess að stjórnarskrá okkar er ekki ítarleg, hún er ekki tæmandi listi yfir allt það sem mönnum getur hugsanlega dottið í hug að setja í stjórnarskrá.

Í umræðunni hefur margoft verið fullyrt, sérstaklega á fyrri stigum hennar, að stjórnarskránni hafi aldrei verið breytt vegna þess að það sé svo mikið íhald hérna á þingi og Sjálfstæðisflokkurinn hafi aldrei nokkurn tíma viljað breyta nokkrum sköpuðum hlut. Þetta er auðvitað rangt. Ef menn fletta upp í lagasafninu og skoða söguna er ljóst að stjórnarskránni hefur verið breytt. Það hefur verið gert á þann hátt að reynt hefur verið að ná pólitískri samstöðu í þinginu um breytingarnar. Sú staðreynd að breytingarákvæðið í núgildandi stjórnarskrá er svona stíft hefur leitt það af sér að menn hafa þurft að setjast saman yfir hlutina til þess að eiga einhverja von um að koma stjórnarskrárbreytingum í gegnum tvö þing vegna þess að það þarf að boða til kosninga á milli þess sem málið er tekið fyrir og síðan samþykkt. Þetta hefur veitt Alþingi aðhald, það mikið aðhald að menn hafa ekki hlaupið til eftir því hvernig stemningin hefur verið í samfélaginu heldur tekið yfirvegaðar ákvarðanir. Ég tel einfaldlega að þetta sé gott fyrirkomulag og að við eigum að einsetja okkur að halda í það.

Ég sé á nefndaráliti meiri hlutans að menn hafa lesið þær fjölmörgu athugasemdir sem bárust vegna 113. gr. frumvarpsins. Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, svo að það komi nú fram, á að bera allar breytingar á stjórnarskrá undir þjóðaratkvæði, en breytingar á öðrum köflum en mannréttindakaflanum á að samþykkja á þingi og bera síðan undir þjóðaratkvæði. Við breytingar á mannréttindakaflanum er hins vegar áfram gert ráð fyrir staðfestingu tveggja þinga á breytingunum líkt og gert er í núgildandi stjórnarskrá. Tillaga meiri hlutans er því að það verði tvær ólíkar aðferðir við að breyta stjórnarskránni eftir því hvaða köflum hennar er verið breyta. Þetta tel ég vera mjög sérkennilegt og valda miklum ruglingi og tel varla hægt að færa rök fyrir því að fara þá leið.

Ég sé á nefndaráliti meiri hlutans að menn hafa hlustað á það sjónarmið að óheppilegt sé að meiri hlutinn geti breytt stjórnarskránni með skömmum fyrirvara. Menn eru greinilega svolítið hrifnir af þessu sjónarmiði. Meiri hlutinn gerir þó ekki breytingar á þessu ákvæði en hvetur til þess að þingheimur fjalli ítarlega um það. Ég ætla að taka það til mín og fjalla ítarlega um ákvæðið og vonast til að fleiri blandi sér í þá umræðu vegna þess að ég tel að þetta sé ein mikilvægasta tillagan sem hér liggur fyrir og kalli á mikla umræðu. Þetta er grundvallarbreyting á því hvernig við hugsum um stjórnarskrá, þann klett og þann grundvöll sem stjórnarskráin á að vera í samfélagi okkar.

Ég heyrði í ræðu þess stjórnarþingmanns sem talaði á undan mér, hv. þm. Helga Hjörvars, að hann var hrifinn af því að þessar breytingar þyrftu að fara í gegnum tvö þing, en taldi samt fínt að það yrði ekki þannig í framtíðinni. Ég skil ekki hvernig hv. þingmaður getur talað svona. Af hverju á eitthvað annað að vera miklu heppilegra í framtíðinni en sú heppilega aðferð sem þingmaðurinn sjálfur er sáttur við? Ég sé að nefndin hefur ekki verið alveg viss í sinni afstöðu, hún hefur verið mjög hugsi yfir þessu. Ég vonast þess vegna til að þetta sé eitt þeirra atriða sem muni taka breytingum áður en málið verður afgreitt endanlega út úr nefndinni, ef það verður þá gert á þessu þingi.

Frú forseti. Stjórnarskránni hefur verið breytt sjö sinnum. Það hefur auðvitað verið reynt að breyta henni oftar, það hafa verið lagðar fram breytingartillögur og breytingarnar hafa verið misviðamiklar. Sumum köflum hefur verið umbylt og aðrir hafa fengið lítils háttar endurskoðun. Það þurfti auðvitað að breyta mjög miklu eftir dómana árið 1991 og það er alkunna þegar mannréttindakaflinn kom inn.

Ef menn vilja endilega hafa það þannig að breytingar fari í gegnum eitt þing og síðan þjóðaratkvæðagreiðslu hafa ýmsir umsagnaraðilar bent á að heppilegt sé þá að það þurfi aukinn meiri hluta og ákveðna lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni til að hún teljist fullnægjandi. Það hlýtur að vera sjónarmið sem allir skilja að ekki sé heppilegt að lítill hluti þjóðarinnar geti ráðið því hvernig stjórnarskráin okkar er. Samkvæmt því ákvæði sem hér liggur fyrir verður almenna reglan sú að það þurfi eitt þing og síðan þjóðaratkvæði, að undanskildum breytingum á II. kafla, mannréttindakaflanum. Um hann á að gilda sú sérregla að samþykki tveggja þinga þurfi fyrir breytingum og auk þess eigi að bera málið undir þjóðina.

Mér skilst að markmiðið með þeirri nýju tilhögun sem meiri hlutinn leggur hér fram sé að tryggja að kjósendur fái með beinum hætti að taka afstöðu til þessara stjórnarskrárbreytinga. Það er í sjálfu sér ágætt, það er lýðræðislegt að virkja þjóðina til að greiða atkvæði. Það þarf hins vegar að huga að ýmsum atriðum. Það þarf að tryggja að áfram verði stöðugleiki og festa í stjórnskipuninni. Það þarf jafnframt að tryggja að háværir minnihlutahópar geti ekki stjórnað umræðunni. Það hafa verið miklar umræður um það undanfarin ár hvernig fjölmiðlar hafa náð að stýra athygli fólks og stýra umræðu um ákveðin mál í samfélaginu. Það er hægt að ná fram ákveðinni stemningu með nógu miklum látum. Við verðum að passa okkur á að haga hlutunum ekki þannig að á einfaldan hátt verði hægt að skapa þær aðstæður í samfélagi okkar að á stuttum tíma verði hægt að ráðast í gagngerar breytingar á stjórnarskrá okkar án þess að nægjanleg yfirsýn og yfirlega komi til, án þess að reynt sé að ná samstöðu um þær breytingar.

Það að einungis þurfi samþykki eins þings tekur úr sambandi það verkfæri sem er í núverandi fyrirkomulagi, að það þurfi að ná pólitískri sátt og breiðri sátt um breytingarnar. Þegar tillaga, eins og t.d. sú sem hér liggur fyrir, þarf jafnframt að fá stuðning næsta þings eftir kosningar hefur það þær afleiðingar að menn setja ekki fram tillögur sem fara gegn vilja stórs hluta kjörinna fulltrúa þjóðarinnar. Það er hins vegar áhyggjuefni að verði þessi breyting að veruleika og það þurfi bara eitt þing til að samþykkja stjórnarskrárbreytingar, er ekki gerður áskilnaður í 113. gr. um aukinn meiri hluta. Samkvæmt henni dugar til einfalt samþykki á Alþingi. Ef meiri hlutinn vill ekki fallast á það sjónarmið mitt að halda eigi breytingarákvæðinu óbreyttu frá því sem nú er tel ég að menn ættu eindregið að gera kröfu um aukinn meiri hluta þegar um er að ræða stjórnarskrárbreytingar. Þá náum við aftur inn þessum þætti varðandi sáttina, að menn reyni að tala saman, vegna þess að stjórnarskráin á að vera sáttmáli okkar allra sem við flest getum samsamað okkur við. Þannig á það að vera og þannig er það í flestum þeim stjórnarskrárbundnu lýðræðisríkjum sem við þekkjum til.

Þá er jafnframt rétt að benda mönnum í meiri hlutanum á, vilji þeir ekki halda ákvæðinu óbreyttu eins og það er í núgildandi stjórnarskrá, kröfurnar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er alveg ljóst að miklu heppilegra er að gera kröfur um ákveðið þátttökuhlutfall, að það komi fram regla í þá veru að þröngir hagsmunahópar geti ekki knúið fram breytingar sem hafa ef til vill ekki náð athygli almennings vegna þess að fjölmiðlar hafa kannski ekki spilað með eða ekki haft áhuga á að kynna málið o.s.frv. Það er allt í lagi að setja fram slíka kröfu, það er ekkert ólýðræðislegt að krefjast þess að ákveðið hlutfall kosningarbærra manna þurfi að taka þátt í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sé ekkert ólýðræðislegt við það.

Það kemur fram í umsögnum ýmissa aðila að þegar stjórnarskráin var samþykkt árið 1944 var sett það skilyrði að meiri hluti kjósenda þyrfti að mæta á kjörstað til að samþykkja breytingarnar. Það kemur jafnframt fram í umsögnum að danska fyrirkomulagið er þannig að meiri hluti þeirra sem taka þátt og a.m.k. 40% kjósenda á kjörskrá þurfa að samþykkja breytinguna. Er það ekki bara fín regla ef menn vilja ekki samþykkja að hafa ákvæðið óbreytt eins og það er í núgildandi stjórnarskrá?

Þá gera ýmsir umsagnaraðilar athugasemdir við það hversu stuttur tími á að líða frá því að Alþingi afgreiðir frá sér stjórnarskrárbreytingu og þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram eða eins og segir hérna, með leyfi forseta:

„Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi einum mánuði og í síðasta lagi þremur mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. “

Það er sem sagt gert ráð fyrir einum til þremur mánuðum frá því að Alþingi afgreiðir frumvarpið. Þetta vekur spurningar um það hversu mikil umræða getur farið fram í samfélaginu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um breytingarnar. Menn benda á að þetta sé styttri tímafrestur en þegar um er að ræða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og við þekkjum hér. Þá er gert ráð fyrir að veittur sé að lágmarki þriggja mánaða tímafrestur frá því að Alþingi ályktar um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram þangað til hún fer fram. Hvers vegna er þessi mismunur? Þrátt fyrir að hafa lesið nefndarálitið get ég ekki séð að lagt sé í það að svara þessum athugasemdum þar. Það væri ágætt ef menn gætu aðeins farið yfir þá hugsun sem er að baki. Af hverju er þetta svona miklu styttra?

Síðan má auðvitað enn og aftur spyrja hvort mönnum þyki í alvörunni heppilegt að gera ráð fyrir að lögfesta tvær ólíkar aðferðir við að breyta stjórnarskrá. Ég skil ekki hvers vegna mönnum finnst það góð tillaga. Ég get bara ekki fellt mig við hana. Sú ákvörðun að leggja samt til að halda í fyrra fyrirkomulag varðandi einn kafla, þ.e. mannréttindakaflann, segir okkur að efasemdirnar hafi verið miklar um þessar breytingar. En eru öll mikilvægustu ákvæðin í stjórnarskránni í mannréttindakaflanum? Eru allir sem standa að þessu máli sammála um að þar og aðeins þar séu ákvæði þess efnis að þau kalli á sérstaka sátt, sérstaka stífni varðandi breytingar og kalli sérstaklega á að breið samstaða náist um þau? Er það þannig? Mér finnst að með því að gera þessa kröfu varðandi II. kaflann hafi menn fallist á að þau sjónarmið sem ég hef rakið hér séu gild og þeir vilji að það skapist breið, pólitísk samstaða. Samt sem áður eru þeir í raun að skipta stjórnarskránni í A- og B-flokk. Þar sem engin rök eru með þessu í nefndarálitinu átta ég mig ekki alveg á því hvers vegna menn vilja valda þessum ruglingi.

Ég tel að öll ákvæði stjórnarskrárinnar séu mikilvæg og ég tel að öll ákvæði stjórnarskrárinnar eigi skilið að fá mikla umræðu og vandaða málsmeðferð og eigi skilið að reynt sé að ná almennri sátt bæði í samfélaginu og hjá löggjafanum um efni þeirra. Ég tel líka mikilvægt að ýmis ákvæði, við getum farið aðeins yfir þau seinna, sem ekki eru í II. kafla hljóti stífari málsmeðferð.

Það væri hægt að taka upp dönsku regluna varðandi þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni. En mín fyrsta tillaga er þó sú að breytingarákvæði núgildandi stjórnarskrár verði óbreytt. Ef menn vilja ekki fallast á það legg ég til að þeir endurskoði þá tillögu sem hér liggur fyrir og taki tillit til þeirra ábendinga sem birtast okkur í umsögnum umsagnaraðila um að setja skilyrði um samþykki aukins meiri hluta Alþingis svo að frumvarp til stjórnarskipunarlaga teljist samþykkt.

Það má nefna að Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon sem og Björg Thorarensen reifa þessi sjónarmið ágætlega í umsögnum sínum og jafnframt að sett verði inn ákvæði eða krafa um lágmarksþátttöku og þá hversu stór hluti þurfi að samþykkja breytingar. Þeir Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon telja rétt að gera kröfu um lágmarksþátttöku.

Það er kallað eftir því í nefndaráliti meiri hlutans að umræða fari fram um þetta mál og ég vona að hér hafi komið fram mín sýn á það hvernig breyta eigi stjórnarskrá okkar.

Það eru fleiri sem tjá sig um þau álitaefni sem ég hef reifað hér. Það kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta að Pawel Bartoszek sem sat í stjórnlagaráði hafi bent á ósamræmið varðandi tímafrestinn. Það kemur reyndar ekki fram breytingartillaga um það.

Ég vil benda á eitt sjónarmið varðandi þetta sem kom fram hjá umsagnaraðilum, nánar tiltekið frá laganefnd Lögmannafélags Íslands. Þeir eru á móti því að bera stjórnarskrárbreytingar undir þjóðaratkvæði og velta upp í því sambandi þeirri spurningu hvað gerist ef slíkum breytingum er hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég segi ekki að ég sé sammála þeim sjónarmiðum en ég tel að þetta kalli á umræðu í þinginu eins og kallað er eftir í nefndarálitinu. Ég tel að við ættum að taka smáumræðu um það hvað gerist þegar Alþingi hefur samþykkt breytingar á stjórnarskrá. Segjum að það sé bara einfalda leiðin, breytingar á ákvæðum í flokki A. Ef þjóðin hafnar slíkum breytingum, ef þær eru viðamiklar, er þá verið að hafna þeim öllum? Já, væntanlega. Eða gera menn ráð fyrir að greidd verði atkvæði um hverja breytingartillögu fyrir sig? Það veldur líka ákveðnum vandræðum, t.d. ef þau eru innbyrðis háð hvert öðru. Það væri ágætt að fá það fram ef umræða hefur farið fram um slíkar vangaveltur umsagnaraðila.

Mikilvægast af öllu finnst mér að afmá ekki þennan grundvöll, þennan klett okkar og undirstöðu samfélagsins, þ.e. að það eigi að skapa sem mesta sátt um breytingar á stjórnarskránni og það eigi að vera erfitt að breyta stjórnarskránni.

Ég vonast til þess að mikil umræða fari fram um 113. gr. í þingsalnum og vona að sú niðurstaða verði ofan á, verði málið leitt allt til enda í þinginu, að núverandi breytingarákvæði stjórnarskrárinnar verði óbreytt. Ég tel að það sé farsælast fyrir okkur öll og kvíði því ef menn ætla að raska því verklagi og þeim grundvelli sem við höfum hingað til haft að okkar stjórnskipun og breytingum á stjórnskipun.

Frú forseti. Nú hef ég lokið fyrri hluta ræðu minnar, svo að hér séu nú kaflaskipti og menn sofni ekki undir ræðunni. Ég hélt þó að ég hefði miklu meiri tíma.

Ég ætla að ræða um Feneyjanefndina en um álit hennar hefur mikið verið rætt. Það er ágætt að málið var sent til hennar til umsagnar, mjög fínt. Það hefði reyndar verið heppilegra hefði allt málið verið unnið af meiri festu. Ég sit í forsætisnefnd og kallaði eftir því í fyrsta skipti fyrir um tveimur árum að fram kæmi tímaáætlun um það hvernig menn ætluðu að halda á þessu máli, stjórnarskrárbreytingunum, vegna þess að þetta eru viðamiklar breytingar. Það var ljóst að tillögurnar yrðu viðamiklar og málið þyrfti að fá mikla efnislega umræðu í þinginu. Hvað svo sem mönnum finnst um aðdragandann, um stjórnlagaráð og kosningarnar og það allt var alveg ljóst frá upphafi að málið þyrfti að fá svigrúm og andrými í þinginu. Við upplifum það nú að það andrými er ekki til staðar. Það er mjög óþægilegt. Það er gríðarlega óþægilegt þegar við erum að ræða um sjálfa stjórnarskrána.

Þess vegna byrjaði ég fyrir mörgum missirum síðan að kalla eftir tímaáætlun en hún hefur ekki enn komið til forsætisnefndar. Það var því erfitt að fylgjast með og átta sig á því hvað mundi gerast og hvenær Alþingi mundi taka sér tíma í þetta. En gott og vel, staðan er svona og nú er málið til umræðu, það er fínt.

Málið var sent til Feneyjanefndar til umsagnar. Maður frétti nú bara af því hér á göngunum og síðan las maður það í fjölmiðlum að sú nefnd tekur sér yfirleitt nokkra mánuði til að fara yfir málin. Það væri ágætt upp á söguna að fá þetta fram: Var það alltaf í áætlun meiri hlutans, tímaáætluninni sem við fengum aldrei að sjá í forsætisnefnd, að senda málið til umsagnar Feneyjanefndar? Ég held að betra hefði verið fyrir okkur öll að fá að vita það fyrr, sérstaklega þá sem reyna að stjórna skipulagi þingsins, að menn ætluðu sér að fara þessa leið vegna þess að hún tekur tíma. Ég er ekki á móti því að hún hafi verið farin, hún var góð, en það hefði verið heppilegra hefðu menn áttað sig á því fyrr. Það hefði verið miklu heppilegra að málið hefði verið sent nefndinni fyrr þannig að við værum ekki að fá álit hennar í miðri 2. umr. vegna þess að það er viðamikið og kallar á talsverða umræðu og mikla yfirlegu.

Feneyjanefndin fjallar aðeins um breytingar á stjórnarskránni, um 113. gr. frumvarpsins, og eftir því sem ég skil enskuna gerir hún í raun margháttaðar athugasemdir við ákvæðið um það hvernig stjórnarskrá skuli breytt í framtíðinni. Í áliti hennar segir að þetta fyrirkomulag eigi skilið frekari yfirlegu og velt er upp spurningum m.a. um aukinn meiri hluta og þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég er ekki sammála öllu sem Feneyjanefndin segir en þarna koma fram athugasemdir sem ég þarf að taka inn og melta af því að ég hef mjög sterkar skoðanir sérstaklega á þessu ákvæði og ég vil fá að melta það sem Feneyjanefndin segir um það. Það hefði því verið gott að geta verið búin að því og fá þetta álit ekki í miðri umræðu.

Frú forseti. Það er mjög margt í áliti Feneyjanefndar sem vert er að ræða. Ég næ ekki að fara yfir öll þau atriði sem ég ætlaði mér að tala um. Ég tel að þrátt fyrir að álit nefndarinnar sé mjög kurteislega orðað og augljóslega skrifað af miklum diplómötum sem eru reyndir í alþjóðlegum samskiptum sé ekki hægt að horfa fram hjá því að ábendingar nefndarinnar eru alvarlegar og þær kalla á meiri yfirlegu. Ég ber virðingu fyrir því að það er fullt af fólki í þessum sal sem hefur mikla ástríðu fyrir því, mikla sannfæringu fyrir því að umbylta eigi stjórnarskránni. Ég ber virðingu fyrir því, ég hef heyrt fólk tala af miklum hita um þessi mál þó að ég sé því ekki sammála.

Það að álitið hefur borist hlýtur að kalla á yfirlegu, hlýtur að kalla á það að við setjumst yfir þetta, förum yfir athugasemdirnar, annars hefði frumvarpið varla verið sent til nefndarinnar.

Tökum sem dæmi hvað nefndin segir um mannréttindakaflann, en miðað við þá tillögu sem ég var að tala um varðandi breytingar á stjórnarskránni, þar sem meiri hluti nefndarinnar telur að stífari reglur eigi að gilda um breytingar á honum, hlýtur sá kafli að vera mikilvægastur. Skoðum hvað nefndin segir um hann. Hún segir að ákvæði um að veita mannréttindum gildi í einkaréttarlegum skiptum borgaranna feli í sér ýmsar áskoranir varðandi túlkun og ekki liggi ljóst fyrir hvernig eigi að túlka einstök ákvæði kaflans vegna þess að hann innihaldi ýmis réttindi; félagsleg réttindi, efnahagsleg réttindi og svokölluð þriðju kynslóðar réttindi sem hafa í raun ekki skýra merkingu vegna þess að löggjöf og dómstólar eigi eftir að gefa þá merkingu. Síðan er bent á að gera þurfi mun skýrari greinarmun á annars vegar efnahagslegu og félagslegu réttindunum og þriðju kynslóðar réttindunum og hins vegar hinum hefðbundnu borgaralegu og stjórnmálalegu réttindum. Þarna þurfi að gera miklu skýrari greinarmun.

Feneyjanefndin er ekki neikvæð gagnvart því að verið sé að gera þessar breytingar en bendir okkur á að mjög mörgum spurningum sé ósvarað, bæði um hvað ákvæðin þýði, hvert sé gildissvið þeirra og innihald. Þetta vekur engar smávangaveltur hjá manni vegna þess að ef menn ætla sér að keyra málið í gegn og breyta þessu öllu, eins og það liggur fyrir, með það á borðinu að öll þessi óvissa sé til staðar spyr maður: Er ekki of hratt farið? Ég veit að þetta er búið að taka heilt kjörtímabil, ég átta mig á því, og þætti það langur tími ef ég hefði mikla ástríðu fyrir því að breyta þyrfti þessu öllu saman, en kapp er oft best með forsjá.