141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að spennustigið væri frekar hátt hérna. Ég var kannski sá fyrsti sem féll í gildruna vegna þess að ég tók athugasemdinni með þessum hætti, en það var ekki skilningur minn að hv. þingmaður væri að tala niður til okkar sjálfstæðismanna.

Ég held líka að það sé mikilvægt, eins og hv. þingmaður bendir á, að við ræðum jöfnun atkvæðisréttar. En við þurfum einnig, eins og ég kom aðeins inn á í ræðu minni, að ræða aðra hluti. Þetta er ekki bara svart/hvítt, jafn aðgangur að ýmsum hlutum eins og heilbrigðisþjónustu, stjórnkerfinu, stjórnsýslunni sem öll er hér. Við verðum auðvitað að taka efnislega umræðu um þetta. Þess vegna kom ég einmitt inn á það í ræðu minni. Þurfum við ekki að taka efnislega umræðu um kosti og galla þess að hafa landið eitt kjördæmi? Ég var ekki að tala niður til neinna í stjórnlagaráði, hvort sem þeir eru af höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Ég hef enga minnimáttarkennd gagnvart höfuðborgarsvæðinu því að það er alltaf miklu betra að vera úti á landsbyggðinni.