143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna orða hv. þm. Sigrúnar Magnúsdóttur undir þessum lið á miðvikudaginn þar sem hún sagðist vilja eyða vafa mínum um að lagning Sundabrautar væri mikið þarfaverk.

Ég efast ekkert um að Sundabraut geti verið mikið framfaraskref. Erindi mitt þegar ég ræddi þetta málefni fyrir nokkru var að fá úr því skorið hvort hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa flutt þingsályktunartillögu um að Sundabraut fari á samgönguáætlun teldu brýnna að reisa Sundabraut en að greiða úr húsnæðismálum Landspítalans. Það var spurning mín. Framsóknarflokkurinn hefur ekki sýnt mikinn áhuga á því verkefni svo vægt sé til orða tekið.

Í mínum huga er hins vegar engin spurning hvort sé brýnna, hvort eigi að vera forgangsverkefni, bygging nýs landspítala, þjóðarspítala eins og sumir kalla hann, eða Sundabrautar. Spurningin sem ég lagði fram var: Hvort er brýnna í hugum framsóknarmanna, Sundabraut eða landspítali?

Ég óska þess að þingsályktunartillaga um byggingu nýs landspítala sem hv. þm. Kristján Möller flutti ásamt öðrum fyrir jól og hefur síðan verið í velferðarnefnd komi bráðlega fyrir þingið þannig að við getum rætt þetta mikilsverða verkefni. Það er nauðsynlegt til að við getum haldið uppi þeirri heilbrigðisþjónustu í landinu sem við viljum á komandi árum. (HöskÞ: Hvað á að skera niður á móti? … 100 milljarðar.) [Kliður í þingsal.]