143. löggjafarþing — 80. fundur,  25. mars 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

417. mál
[17:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fínar umræður um þetta mál og fagna þeirri samstöðu sem hér ríkir um að farið verði vel og vandlega yfir málið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég geri engar athugasemdir við það og hvet þingmenn sem þar sitja og aðra til þess að láta sig þetta mál varða.

Við í ráðuneytinu og ég sem ráðherra höfum hins vegar fallist á rök kirkjunnar í þessu, enda gilda ákveðin lög um það hvernig innanríkisráðherra ber að koma inn með mál sem kirkjuþing telur skipta máli. Ég vil fara lítillega yfir þau mál, ekki þar fyrir að ég fór ágætlega yfir þau í ræðu minni hér í gær, en ég vil aðeins koma inn á það sem hefur verið nefnt hér.

Ég vil, eins og ég sagði áðan, sérstaklega þakka fínar og málefnalegar umræður. Mér fannst afar ánægjulegt að hlusta á hv. þm. Össur Skarphéðinsson fara yfir málin í gær af þeim skilningi sem hann gerði og mér fannst hann nálgast verkefnið þannig. Hið sama er að segja um hv. þm. Árna Pál Árnason og fleiri sem tóku til máls í gær sem er grundvallaratriði í því frumvarpi sem við nú ræðum. Hugmyndin er að auka sjálfstæði kirkjunnar og svo er hugmynd um aukið lýðræði á þeim vettvangi. Mér finnst það skipta máli. Við getum öll talað um það og það er hárrétt að kirkjan hefur, líkt og margar aðrar stofnanir í samfélaginu, glímt við erfið viðfangsefni á undanförnum missirum og árum.

Mér finnst samt mjög margt í þessu ávarpi kirkjunnar til þingheims bera vott um að kirkjan hefur líka lært af þeim árum eins og margar aðrar stofnanir og skilur kannski kröftugar en oft áður mikilvægi þess að hleypa líka leikmönnum að. Mér finnst það skipta máli í þessu sem hér liggur frammi þannig að við ræðum fyrst styrkleika þess.

Það er áhersla á aukið lýðræði og aukið sjálfstæði sem og áhersla á aukið aðgengi þeirra sem starfa innan kirkjunnar og vilja kirkjunni vel. Mér finnst það skipta máli.

Síðan er eðlilegt að spurt sé: Hvers vegna er þessi hluti af endurskoðun núna? Það var líka spurt um það í umræðunni í gær hvers vegna ákveðið hefði verið að ganga til heildstæðrar endurskoðunar árið 2007. Sagan segir okkur að það hafi að stærstu leyti verið vegna þess að þá voru akkúrat tíu ár frá því að veruleg breyting hafði orðið á lagaumhverfi kirkjunnar og þess vegna var sett í gang mikil vinna og tilnefndir fulltrúar í þá nefnd. Ég lá ekkert á því hér í gær þegar ég fór yfir málið að menn hefðu kannski ekki áttað sig nákvæmlega á umfangi þeirrar vinnu og séð þegar menn voru komnir inn í vinnuna að þetta krefðist lengri tíma, meiri sáttar og aukinnar samstöðu. Það hefur orðið kirkjuþingi lengra ferli að vinna að þeirri heildarendurskoðun en gert var ráð fyrir í upphafi.

Það er alveg hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur í andsvörum í gær sem benti á að hér hefði ekki verið frekar en á öðrum kirkjuþingum 100% samstaða um þær breytingar sem hér eru lagðar til. Ég aflaði mér hins vegar upplýsinga um það milli umræðna hér og í ljós kom að sú samstaða var samt almenn. Þó að ekki hafi allir verið á nákvæmlega sama stað var samstaðan almenn og það skiptir máli. Ég vildi svara því líka.

Ég skil þá miklu umræðu og deili með þingheimi mikilvægi þess að fara vel yfir það og þess vegna var það sérstaklega rætt þegar kirkjan fór yfir málið og ávarpið gagnvart ráðuneytinu. Þá var sérstaklega mikil umræða sem fór í að velta upp þessum hugmyndum um agamálin og hvort það væri skynsamlegt að gerðar yrðu þær breytingar sem er lagt til að gerðar verði hér.

Ég get ekki alveg tekið undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Það er þó hárrétt að það kemur fram í greinargerð frumvarpsins að það sé farsælt að leggja þessar nefndir niður enda muni það leiða til hagræðingar. Það er talið upp sem einn af þáttunum. Hins vegar er meginástæðan sem kirkjuþing gefur að með því að leggja af þessar nefndir og setja í staðinn starfsreglur um úrræði vegna aga- og siðferðisbrota telji kirkjuyfirvöld unnt að skerpa á því í hvaða farveg kvörtunar- og kærumál eigi að fara. Það er sem sagt skoðun kirkjuþings að með þessum hætti verði ferlarnir skýrari og síðan kemur það skýrt fram í frumvarpinu og greinargerðinni sem fylgir því og hefur komið fram líka í rökstuðningi kirkjuþings að síðan verði settar sérstakar starfsreglur er þetta varðar og kirkjuþingið setji þá mjög skýrar leikreglur um hvernig á þessu skuli haldið.

Kirkjan hefur gengið í gegnum margs konar erfiðar spurningar og erfið viðfangsefni, eins og ég sagði áðan, og við höfum ekki alltaf verið sátt við það hvernig kirkjan hefur tekið á þeim. Ég held þó að það sé mikið mál hjá kirkjuþingi og þeim sem starfa innan kirkjunnar að taka sannfærandi á því. Ég held að við verðum að treysta því en hvet hins vegar þingnefndina til að skoða það vandlega, fara rækilega yfir það og meta hvort þetta sé besta leiðin. Okkar niðurstaða var að þetta væri vel rökstutt og til þess fallið að skerpa á þessum þáttum og tryggja að kirkjan mundi ráða við þessi brýnu mál með þeim hætti sem hún telur farsælast. Fyrst og síðast var það vegna þess að ráðuneytið og þar með talin sú sem hér stendur er þeirrar skoðunar að kirkjuþing, sem lýðræðislegasta stofnun kirkjunnar hvað þetta varðar, væri vel til þess fallið.

Hið sama er að segja er varðar spurningar um fjármálin. Þau voru líka nefnd hér í gær. Samkvæmt lögum ber kirkjuþing meginábyrgð á fjárhagslegum þáttum er varða kirkjuna. Í því frumvarpi sem við ræðum hér er í raun lítið annað gert en að skerpa á því sem við töldum skipta máli.

Ég held að ég hafi veitt svör við spurningum til að auka skýrleika málsins. Ég heyri á þingmönnum sem tjá sig um frumvarpið að það er þingheimi nokkuð kunnuglegt að því leyti að menn þekkja þá umræðu sem er verið að setja hér fram. Ég árétta það sem ég sagði í ræðu minni í gær að ég tel að þarna gefist kirkjunni tækifæri til að taka mikilvæg skref í átt til aukins sjálfstæðis, lýðræðis og nýrra og nútímalegri vinnubragða. Það breytir engu um það að heildarendurskoðun heldur áfram, henni er ekki lokið, og klárlega þannig að kirkjan vill og mun þurfa á komandi árum að skerpa þessa hluti enn frekar. Ég er þeirrar skoðunar að það sem verið er að gera hér sé til þess að bæta það umhverfi sem kirkjan starfar í.