144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við í þessum sal höfum á liðnum missirum ítrekað rætt stöðu Alþingis og erum að því enn þann dag í dag, viðhorf og traust til þingsins og hvernig unnið er að málum í þinginu. Eftir hrunið fór fram ítarleg umræða um eftirlitshlutverk Alþingis, í tengslum við rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem niðurstaðan var að styrkja þyrfti stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mikið var rætt um að minnka ráðherraræðið. Nú eftir að ný ríkisstjórn tók við ber ítrekað á auknu ráðherraræði, jafnvel einokunartilburðum, sem meðal annars hafa birst í ótrúlega frumstæðum aðferðum ríkisstjórnarinnar á liðnum dögum. Þessu til viðbótar má nefna tillögur í þinginu sem hafa einmitt gengið í þessa átt.

Við höfum séð stjórnarráðsfrumvarp forsætisráðherra þar sem hann óskar eftir heimild til þess að hann fái að ráða því hvar stofnanir eru staðsettar. Við erum að tala um raforkulög sem sem betur fer tókst að breyta þar sem kerfisáætlun, gríðarlega stór áætlun, átti ekki að fara fyrir þingið. Við erum að tala um tillögu frá hæstv. utanríkisráðherra um að Þróunarsamvinnustofnun færist undir hans valdsvið beint, hann stjórni stofnuninni. Við erum að tala um almannatryggingar, sem ráðherra félags- og húsnæðismála á að ráða hvar ný stofnun er staðsett. Allt hefur þetta áður verið til meðhöndlunar hjá þinginu. Við erum að tala um starfsáætlun framhaldsskóla sem hefur verið rætt um og þar af leiðandi hægt að leita umsagna í þinginu, það á að fara út og er þegar búið að ákveða það.

Það er allt á sömu bókina lært, það er verið að reyna að losna við að Alþingi Íslendinga fjalli um málin. Það er ekki kallað lýðræði heldur einræði. Svo fáum við nýjasta málið, það er fróðlegt og mikilvægt fyrir upplýsingar hér í þessu þingi að við fáum til dæmis upplýsingar um hver aðkoma — við vitum hver aðkoma stjórnarandstöðunnar var — stjórnarþingmanna var að því máli sem þar er til umræðu. Vonandi fáum við svör við því hér á eftir. Fengu þeir að vita um þetta bréf á sama klukkutímanum og það var tilkynnt á erlendri grundu eða fyrr? Fáum við allar upplýsingar um það hvernig staðið var að því samráði sem stendur í bréfinu að hafi átt sér stað á milli ESB og ráðherra þar sem þingið er snuprað (Forseti hringir.) en fulltrúar ESB sitja við borðið? Fleiri slíkum spurningum verðum við að fá svör við ef við ætlum einhvern tímann að bera virðingu fyrir því (Forseti hringir.) að hér eru bæði meiri og minni hluti. Á bak við þennan stjórnarmeirihluta er 51% kjósenda …