144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:26]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eiga frumvörp er varða afnám verðtryggingar af neytendalánum að koma inn í þingið núna á vorþingi. Þessi frumvörp eru núna samkvæmt þingmálaskránni í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ríkisstjórnin hefur boðað afnám verðtryggingar af neytendalánum. Fyrstu skrefin í þeim málum eiga samkvæmt frumvörpunum að eiga sér stað snemma árið 2016. Þá verði með öllu óheimilt að bjóða verðtryggð neytendalán til lengri tíma en 25 ára.

Við vinnslu frumvarpanna er varða afnám verðtryggingar hefur verið stuðst við vinnu sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum, bæði meirihlutaálit og sérálit. Tillaga meiri hlutans er meðal annars að bannað verði að veita verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára. Lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur úr fimm í tíu ár og takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðarlána. Einnig verði hvatar auknir til töku og veitingar á óverðtryggðum lánum. Fram kemur að reynsla þessara skrefa verði metin og upp úr því verði mótuð áætlun um fullt afnám.

Tillaga Vilhjálms Birgissonar, sem skilaði séráliti, er meðal annars sú að verðtryggð neytendalán verði með öllu óheimil. Vegna óverðtryggðra lána verði gripið til mótvægisaðgerða eins og til dæmis niðurgreiðslu höfuðstóls fyrstu ár lánstímans. Jafnframt megi nýta séreignarsparnað til að lækka höfuðstól lána en sú aðgerð hefur þegar komið fram í skuldaaðgerð ríkisstjórnarinnar vegna verðtryggðra húsnæðislána.

Í sérálitinu kemur fram að þak verði sett á verðtryggingu eldri lána og er það einstaklega mikilvægt. Langar mig í því samhengi að vitna í ræðu samflokksmanns míns, hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, en hann sagði, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að nú um stundir í hálflokuðu hagkerfi ríki stöðugleiki þá er fram undan afnám hafta og kjarasamningar. Það yrði gríðarleg kjarabót og skynsamlegt innlegg í kjarasamninga að koma böndum á eldri verðtryggð lán og bíða ekki boðanna í að skipta yfir í óverðtryggt húsnæðislánakerfi.“

Þarna erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála.