144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að biðja formann Samfylkingar afsökunar á því að hafa litið á bók Össurar, og það sem þar stendur, sem öruggar heimildir, vegna þess að ég gekk út frá því að það sem stæði í þeirri bók væri sannleikur og ég mun (ÖS: Það er skrifað í þeirri trú.) hér eftir taka mið af því í mínu máli.

Hins vegar þegar hv. þingmaður kemur hingað og fjallar um atkvæðagreiðslur sem voru á síðasta kjörtímabili þá liggur þetta fyrir. Það hefur verið fjallað um þetta ítrekað. Ástæðan fyrir því að hlaupið er undan núna í flæmingi í tengslum við þessa umræðu er sú að núverandi stjórnarandstaða sem þá var í ríkisstjórn var ekki tilbúin til þess að spyrja þjóðina áður en lagt var af stað. Það var öllum bolabrögðum beitt, þess vegna er þetta svo holur málflutningur þegar hv. þingmaður kemur nú og talar um það með þessum hætti.

Varðandi það hvað ríkisstjórnin er að gera núna þá er hún að gera þetta í fullri heimild. (Forseti hringir.) Við skulum bara hafa það hugfast að þegar fyrri ríkisstjórn (Gripið fram í.) gerði hlé á aðildarviðræðum í lok síðasta kjörtímabils var (Forseti hringir.) með nákvæmlega sama hætti haft samráð við utanríkismálanefnd og um þetta hefur verið fjallað. Núverandi ríkisstjórn gerir þetta í fullri heimild. En að formaður Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) hlaupist svona undan í flæmingi hvað (Forseti hringir.) þetta varðar, það er ástæða fyrir því að (Forseti hringir.) málflutningurinn er orðinn svona holur. (Forseti hringir.) Hljómurinn er orðinn svo holur (Forseti hringir.) vegna þess að hún þorði ekki sjálf, Samfylkingin, að spyrja þjóðina (Forseti hringir.) á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) … umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að virða tímamörk í ræðuhöldum.)