144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka boltann eiginlega þar sem hv. þingmaður skildi við hann. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að hann teldi að leita þyrfti til þjóðarinnar um ráðgjöf varðandi hvað gera ætti í sambandi við framhald þessa máls. Ég skildi hann svo. Það leiðir auðvitað hugann að því sem ég rakti í umræðum fyrr í dag, að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði grein fyrir vangaveltum og umræðum sem áttu sér stað í flokki hans og í stjórnarmyndunarviðræðum 2009 í sambandi við nákvæmlega þann þátt hvort leita ætti til þjóðarinnar varðandi að afla umboðs, getum við sagt, til þess að fara út í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég set þetta í samhengi við það að hér hafa verið umræður um að líklega kæmi fram tillaga um að framhald málsins mundi ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. lögð yrði fram tillaga á Alþingi þar sem vísað væri til þess að efnt væri til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurningin yrði eitthvað á þá leið: Á Ísland að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið? Eða eitthvað í þá veru, efnislega innihaldið væri á þá leið.

Þá velti ég því fyrir mér í fyrsta lagi, ég þykist vita hvert svarið er við fyrri spurningunni, hvort hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon styddi slíka tillögu eða væri tilbúinn að flytja slíka tillögu um að kosið yrði um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort haldið skyldi áfram í aðildarviðræðum. Þá finnst mér spurning í ljósi afstöðu hv. þingmanns til Evrópusambandsaðildar hvort hann mundi ráðleggja fólki að segja já eða nei í slíkri atkvæðagreiðslu.