148. löggjafarþing — 80. fundur,  17. júlí 2018.

samstarfsverkefni Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

676. mál
[14:08]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um samstarfsverkefni Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Flutningsmenn ásamt mér eru nefndarmenn og áheyrnarfulltrúar í forsætisnefnd, þ.e. sá sem hér stendur og hv. þingmenn Guðjón S. Brjánsson, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Bryndís Haraldsdóttir, Inga Sæland og Þorsteinn Víglundsson.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að ganga til samstarfs við Hið íslenska bókmenntafélag um útgáfu tveggja ritverka:

a. verks um Þingvelli í íslenskri myndlist,

b. nýs yfirlitsverks um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar.

Alþingi ályktar enn fremur að styðja útgáfuna fjárhagslega með árlegum fjárveitingum þar til verkefnunum er lokið, á grundvelli samnings sem gerður verði þar um milli forsætisnefndar fyrir hönd Alþingis og Hins íslenska bókmenntafélags og mennta- og menningarmálaráðuneytið staðfesti.

Herra forseti. Það er óþarfi að fjölyrða um tilefnið sem þessi tillöguflutningur er tengdur. Ef segja má það um einhvern einn stað á Íslandi að þar slái hið íslenska söguhjarta eru það Þingvellir. Saga Alþingis og saga Þingvalla er mjög samofin og þess vegna þykir forsætisnefnd það mjög vel við hæfi að stuðlað verði að því að út komi bók um Þingvelli eins og þeir hafa birst helstu myndlistarmönnum og málurum þjóðarinnar á löngu tímabili. Markmiðið er að draga fram fegurð staðarins eins og þessir margir fremstu listamenn okkar hafa séð hana og túlkað.

Þá er og mjög vel við hæfi að Alþingi eigi um hluti af þessu tagi samstarf við Hið íslenska bókmenntafélag. Ef það er eitthvert eitt félag, eins og Þingvellir eru einn staður, sem er samofið sögu sjálfstæðisbaráttunnar er það auðvitað Hið íslenska bókmenntafélag sem er elsta menningarfélag landsins og stendur fyrir merkri starfsemi og hefur gert í allri sinni sögu og gefur m.a. út, er mér sagt, elsta tímarit Norðurlanda þar sem er Skírnir.

Ber þá að minnast á að Hið íslenska bókmenntafélag varð 200 ára árið 2016 og í tengslum við það afmæli var til umræðu að Alþingi og Hið íslenska bókmenntafélag myndu einnig af því tilefni efla samstarf sitt. Nú er það sem sagt gert með þessum hætti, að Alþingi styðji tvö mjög merk og mikilvæg útgáfuverkefni sem Hið íslenska bókmenntafélag hefur haft í undirbúningi að undanförnu.

Það síðara er útgáfa nýrrar bókmenntasögu, heildarútgáfa en þó í stuttu og aðgengilegu formi á sögu íslenskra bókmennta allt frá fyrstu tíð til og með dagsins í dag. Það er í góðu samræmi við þá ályktun Alþingis sem samþykkt var til undirbúnings hátíðarhöldum á árinu 2018, en þá var einmitt talað um að án alls vafa væri menningararfur og tunga þjóðarinnar sá grundvöllur sem frelsisbarátta hennar var reist á á 18. og 19. öld. Bæði þessi verkefni, Þingvellir sem slíkir og hlutdeild þeirra í íslenskri myndlist og bókmenntasaga, tengjast ákaflega vel tilefninu.

Áætla má að kostnaðurinn við undirbúning og útgáfu þessara tveggja verka muni nema samtals um 25–30 millj. kr. og að þeirri fjárhæð megi skipta á þrjú ár, árin 2019–2021. Aftar í greinargerð tillögunnar er gerð ítarleg grein fyrir hvoru útgáfuverkefninu um sig og ég vísa til þeirra útskýringa og þess rökstuðnings sem þar kemur fram.

Að lokum legg ég til að tillagan gangi til síðari umr. og allsherjar- og menntamálanefndar.