149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða á vinnumarkaði og jöfnunarsjóður.

[13:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga þegar hv. þingmaður ræðir að barnabætur hafi verið skertar að þær voru einmitt auknar verulega. Þeim fjölgaði um 2.200 sem eiga rétt á barnabótum. Skerðingarhlutföllin hækkuðu. Við skulum líka hafa sannleikann í heiðri þegar við ræðum hér um hvað er búið að gera.

Hv. þingmaður telur að húsnæðistillögurnar komi of seint fram. Ég tek ekki undir það. Þær sýndu hins vegar fram á þörfina fyrir að við greinum stöðuna og áttum okkur á því hvaða aðgerðir skila árangri og það hefur verið gert.

Hvað varðar framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa verið samskipti við Samband íslenskra sveitarfélaga um stöðu jöfnunarsjóðsins. Þar hafa framlög aukist töluvert á undanförnum árum. Ýmsar aðrar aðgerðir eru fyrirhugaðar í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, t.d. yfirfærsla gistináttagjalds og fleiri þættir. Ég lít svo á að þessu samtali hafi ekki verið lokið áður en Samband íslenskra sveitarfélaga ákvað að senda frá sér ályktun um það samtal, svo að ég segi það bara hreint út. (Forseti hringir.) Mér finnst hins vegar eðlilegt að við ræðum þessi samskipti ríkis og sveitarfélaga, hvernig við viljum haga þeim og hvort við viljum t.d. frekar horfa (Forseti hringir.) til þess að tekjustofnar færist yfir til sveitarfélaga.