149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Því verður ekki neitað að staða neytenda hér á landi er mjög veik og ber kannski fyrst að líta til þeirrar einföldu staðreyndar að neytendamál hafa alltaf verið víkjandi í umræðu, bæði hér í þessum sal og í áherslum stjórnvalda hverju sinni. Það má í raun segja að það sé viðhorf stjórnvalda gagnvart neytendum og neytendamálum sem veldur því fyrst og fremst hversu veikri stöðu íslenskir neytendur eru í.

Hér er, eins og fram kom fyrr í þessari umræðu, 66% dýrara að reka heimili en að meðaltali í Evrópusambandslöndunum. Vissulega er vísað til þess að laun séu líka há hér en það eru fjölmargir þættir sem við gætum gripið til til að lækka þennan kostnað. Það er ekkert óhjákvæmilegt að allt þetta háa kostnaðarstig fylgi launastiginu okkar. Matvælaverðið er augljósasta merkið. Matvælaverð hér er fyrst og fremst hátt vegna mikillar tollverndar, ónógrar samkeppni með innlendar búvörur. Það hafa rannsóknir sýnt ítrekað. Vaxtastig er hér miklum mun hærra en í nágrannalöndum okkar. Kostnaður bankakerfisins í rekstri er þrefaldur á við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Þessi þrjú atriði, eins æpandi og þau eru hér framan í okkur, endurspegla veika stöðu neytenda en eru samt hvergi á blaði núverandi ríkisstjórnar til neinna úrbóta. Ríkisstjórnin hefur engan áhuga á því að stemma stigu við háu matvælaverði, lækka þann mikla kostnað sem fylgir myntinni okkar, sem er auðvitað grunnurinn að þessum mikla vaxtakostnaði, eða grípa til þeirra aðgerða sem þarf til að lækka kostnaðarstig fjármálakerfisins.

Það er áhugaleysi stjórnvalda, ekki bara þessarar ríkisstjórnar heldur í gegnum tíðina, sem veldur því að staða neytenda er jafn veik og raun ber vitni, sem veldur því að hér er jafn dýrt að búa og raun ber vitni.