149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:58]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er einstaklega viðeigandi að þessi tiltekna umræða eigi sér stað á þessum tíma og kannski líka á þessum stað. Málefni neytenda eru nefnilega náskyld kjarabaráttunni sem nú geisar. Uppi eru kröfur um bætt lífskjör fólksins í landinu. Því vakna óneitanlega spurningar um hvernig megi bæta kjör almennra neytenda í landinu.

Þrátt fyrir að umræðan gefi oft og tíðum aðra mynd eru launakjör ekki eina kjarabótin sem er í boði. Kaupmáttur þessara launa er það sem raunverulega skiptir máli og hann er hægt að bæta til muna. Íslenskir launþegar hafa löngum sætt sig við að borga fyrir sveiflur íslensku krónunnar, minnsta frjálsa gjaldmiðils heimsins. Því fylgja líka afleiðingar, hraðar gengislækkanir og hækkanir sem launþegar landsins þurfa að greiða fyrir á meðan aðrir aðilar geta í raun verðtryggt sig.

Ef krónan byrjar að veikjast verður vara sem er innflutt til landsins dýrari fyrir innflytjanda. Innflytjandinn hækkar verðið á vörunni sem því nemur til smásalans og smásalinn hækkar síðan verðið til neytandans, þ.e. launþegans sjálfs. Verslunin og innflytjandinn halda þannig sínum gróða stöðugum en neytandinn eða launþeginn hefur minna á milli handanna. Allir í þessu ferli geta hækkað verð sem nemur gengissveiflum — nema heimilin geta ekki endilega aukið tekjur sínar. Heimilin geta ekki hækkað tekjur sínar sem því nemur, verðtrygging þýðir bara að taka gengissveiflurnar og henda þeim á heimilin í landinu.

Rússibani krónunnar er ekki eitthvert lögmál eins og margir vilja vera láta. Þetta er einfaldlega afleiðing pólitískrar ákvarðanatöku og nú er kominn tími á að við tökum aðrar ákvarðanir, tökum ákvarðanir fyrir neytendur.