149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[15:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra, Þórdísi K. R. Gylfadóttur, fyrir innlegg hennar og skýr svör. Hv. þingmönnum þakka ég jafnframt fyrir innlegg þeirra í umræðuna. Það sem eftir situr eftir þessa umræðu er kannski fyrst nauðsyn þess að ræða þessi mál reglulega á þingi. Þetta er stór málaflokkur og flókinn. Hann er margþættur og margbrotinn eins og kom augljóslega fram í umræðunni. Í stóra samhenginu vísa ég í ræðu síðasta ræðumanns sem á undan mér talaði, hv. þm. Sigríðar Maríu Egilsdóttur, sem sagði að neytendamál væru lífskjaramál. Það er kannski það sem dregur fram hversu víðtækur þessi málaflokkur er.

Hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir stofnanaumgjörðina og ég held að það sé alveg ljóst eftir þá skýru yfirferð hæstv. ráðherra að umgjörðin er til staðar. Þetta er spurning um að við séum á vaktinni með laga- og regluverkið og svo kannski ekki síst upplýsingar og fræðslu til neytenda þannig að umgjörðin og regluverkið virki. Ég held að fullyrða megi að við séum eftirbátar Norðurlanda. Í þeirri skýrslu sem ég vísaði til í fyrri ræðu kemur fram að fylgni við álit úrskurðarnefnda er mun minni hér en á Norðurlöndum, alveg sláandi miklu minni. (Forseti hringir.) Að síðustu, hæstv. forseti, vil ég segja að ég held að við verðum að móta heildræna stefnu fyrir málaflokkinn og ég bið hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir það og svara því.