149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[17:58]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Ég heyri nefnilega þetta aftur og aftur. Jú, það er klárlega ákveðið lýðheilsuvandamál til staðar og sumir í pólitík telja að í þessu tilfelli skuli gripið inn í það lýðheilsuvandamál sem áfengisneysla er, eða við skulum segja ofneysla, misnotkun á áfengi. Það skuli gripið inn í með því einmitt að hækka verðið og takmarka aðgengi í tíma. Verðið hefur tvöfalt meiri áhrif á áfengisneyslu en aðgengi í tíma og rými samkvæmt gögnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Gögnin þar eru alveg skýr með það að ef verðið hækkar um 10% fer áfengisneysla niður um 4%. Það er akkúrat helmingi minna en við aðgengið. En já, þetta er klárlega lýðheilsuvandamál. Ég er alveg sammála því.

Aðgengisatriðið, já, það er verið að takmarka það hér, það er ekkert verið að skipta sér af verðinu en menn halda verðinu uppi. Er þingmaðurinn ekki sammála því að við þurfum að fara að setja þessa peninga — 25% af öllum þessum peningum sem eru teknir inn af áfengissölu eru borguð af 2,5% — í meðferðarmál? Myndi hann leggja fram frumvarp með (Forseti hringir.) mér um að áfengisgjald skyldi tekið upp í 10% fyrir allra sjúkasta fólkið, eins og SÁÁ hefur kallað eftir?