149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:22]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fullvissa hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson um að ég mun hugsa mig vandlega um í þessu máli og mér hefur einhvern veginn tekist að komast í gegnum lífið án þess að hugsa verulega mikið um þetta þó að það sé alltaf til umræðu á Alþingi. Ég hlusta á umræðuna og ég mun taka þátt í störfum allsherjar- og menntamálanefndar og reyna að komast að einhverri niðurstöðu í kjölfarið á því.

Mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann af því að hann er læknir og talaði um hófdrykkju sem mér fannst hann draga svolítið í efa, að hófdrykkja væri æskileg. Er það ekki svo að minna aðgengi að áfengi fylgdi meiri ofsadrykkja, meiri lotudrykkja, getum við kallað það? Í framhaldi af því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að segjum kannski fjögur hvítvínsglös á viku séu skaðlegri en ein vodkaflaska á kvöldstund.