149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:31]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á marga hluti. Fyrst varðandi aðgengið, það er ekki skoðun, tilfinning eða fullyrðing. Það eru staðreyndir sem tala sínu máli og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, eins og ég nefndi í ræðu minni, hefur ítrekað bent á að þarna á milli sé línulegt samband.

Varðandi áfengisneyslu og eigum við ekki að segja geðheilbrigði sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, það er einmitt sérstaklega þakkarvert að hann skyldi nefna það, því að margsýnt hefur verið fram á það í alls konar rannsóknum að áfengisneysla til langs tíma litið er mjög slæm fyrir andlegt heilbrigði. Hún eykur á þunglyndi, eykur á kvíða — (Gripið fram í.) þar hefur verið hægt að einangra út virka efnið, etanól, sem orsakavald. Ég held að menn ættu að fara mjög varlega í það (Gripið fram í.) að kalla eftir meiri áfengisneyslu í því skyni að bæta geðheilbrigði þjóðarinnar. Ég held að þá væru menn á afar hálum ís.