149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[18:32]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og fróðlega og þar talar greinilega maður með þekkingu á þessu sviði enda menntaður í læknisfræði. Ég ætla að koma því að hér að ég hef töluverðar áhyggjur af unga fólkinu í þessu sambandi vegna þess að ég held að aukið aðgengi að áfengi geti verið ungu fólki sérstaklega skaðlegt.

Það er til ný rannsókn sem gerð var á Norðurlöndum sem sýnir að dregið hefur úr áfengisneyslu ungmenna síðustu tíu árin, sem er jákvætt. Ungmenni á Íslandi drekka minnst en ungmenni í Danmörku mest. Að sjálfsögðu ber að fagna því að áfengisneysla ungs fólks hefur minnkað og það er áhyggjuefni að auka aðgengi í þessum efnum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort munurinn á milli frjálslyndis í áfengismálum, (Forseti hringir.) aðgengis að áfengum bjór, skýri kannski muninn á milli þessara íslensku ungmenna og ungmenna í Danmörku, (Forseti hringir.) þ.e. aðgangurinn er mun auðveldari í Danmörku. Hefur það ekki áhrif?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á að ræðutími hverju sinni er ein mínúta.)