149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:44]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V) (andsvar):

Nei, hv. þingmaður, þetta er ekki hræsni. Í frumvarpinu er fjallað um auglýsingar og viðskiptaboð og settar fram mjög ítarlegar hömlur á því. Ég efast t.d. um að Morgunblaðið, Fréttablaðið eða önnur blöð gætu komist hjá a-lið þar sem bann er lagt við því að beina auglýsingum að börnum eða ungmennum og sagt að ekki megi sýna börn eða ungmenni í slíkum auglýsingum. Þarna er verið að takmarka auglýsingar. Hins vegar er það staðreynd að fyrirtæki eyða miklum fjármunum í að auglýsa áfengi nú þegar á þeim miðlum þar sem það er ekki bannað og þá án nokkurra takmarkana. (KÓP: Af hverju ættu þeir ekki að gera það áfram?) Það er góð spurning en vonandi myndu þau eyða meiri pening í að auglýsa á öðrum stöðum þar sem þær hömlur væru virtar sem lagðar eru fram í frumvarpinu og auglýsingarnar þá til að mynda ekki beinast að börnum eða ungmennum.