151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hrokinn — ég var ekki að beina því til hv. þingmanns heldur til sjálfs míns, að glíma við eigin hroka. Það væri vandamálið eftir þessa ræðu. Það er auðvitað allt í lagi að hafa einhverja aðra skoðun á því hvernig skattrannsóknum skuli háttað í landinu. Mér er alveg sama um það. Menn mega hafa hvaða skoðun sem er á því. Ég er bara að segja að það eru engin rök til þess að segja að hér sé verið að veikja skattrannsóknir. Þetta frumvarp er ekki að undirlagi Sjálfstæðisflokksins eins og verið er að ýja að eða að undirlagi þeirra sem vilja koma skattsvikum undan réttvísinni. Þetta er unnið af starfshópi sérfræðinga, m.a. skattrannsóknarstjóra, um fyrirkomulag skattrannsókna, hvernig þær verða markvissari og skilvirkari. Hér er alltaf verið að ýja að því að þetta sé eitthvað til þess að veikja skattrannsóknir. Það hefur enginn haldið því fram nema fulltrúar Pírata og Samfylkingar hér á þingi, ekki nokkur maður. Auðvitað er verið að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra í núverandi mynd en skattrannsóknir eru ekkert að hverfa hjá stjórnsýslunni. Þetta er bara innan Skattsins, sem er mjög eðlilegt. Það er bara orðið stærra, stærri eining, meiri þekking, alveg eins og menn sameinuðu Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Það er enginn annar tilgangur en að styrkja þessar rannsóknir, styrkja skatteftirlit, styrkja það að álagningin sé rétt og að mál þeirra sem brjóta af sér fari fyrir dóm með ákæru og dómi. Þetta er ekki flóknara en það.