151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[15:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get því miður ekki hjálpað hv. þm. Brynjari Níelssyni í því að höndla sinn eigin hroka eins og hann (Gripið fram í.) var að tala um áðan, þannig að ég get ekki svarað hv. þingmanni efnislega hvernig hann geti höndlað hann. En það er svo áhugavert sem fram kemur í máli hv. þingmanns, að hann sé algjörlega sannfærður um að hér sé verið að styrkja rannsóknir og eftirlit með skattalagabrotum og skattundanskotum enn frekar þegar umsagnir um þetta frumvarp tala akkúrat í aðra veru og nefna akkúrat aðra hluti. Ef hv. þm. Brynjari Níelssyni er svo umhugað um að styrkja rannsóknir og eftirlit enn frekar, hvers vegna er honum þá ekki umhugað um að styrkja enn frekar embætti skattrannsóknarstjóra, frekar en að færa það embætti sem einhvers konar deild inn í annað embætti? Ættum við ekki frekar að sameinast um það að setja enn meiri fjármuni í skattrannsóknir, enn meiri mannskap og mannafla í það að koma hingað til baka þeim fjármunum sem komið hefur verið undan og koma í veg fyrir að þeim sé áfram skotið undan? Ég held að í því gætum við hv. þm. Brynjar Níelsson sameinast, ef það er okkar sameiginlega sýn og vegferð. Ég bíð spennt eftir því að við sameinumst í einhverju, ég og hv. þingmaður, en það er kannski von á einum enn, herra forseti.