151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:20]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum meira og minna sammála hvað þetta varðar. Við skulum bara snúa bökum saman um að innleiða hér dýpri og betri umræðu um Evrópumál og aðild Íslands að Evrópusambandinu. Að hluta til erum við að fara aftur á bak. Ástæðan fyrir því að rifja ég rifja upp þá sögu að ég leiddi Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar árið 2008 ásamt Illuga Gunnarssyni er að þá náðum við 70% íslensks atvinnulífs á bak við niðurstöðu skýrslu okkar um að sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu. Undir þá niðurstöðu skrifuðu ASÍ, Viðskiptaráð Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og fleiri aðilar innan Samtaka atvinnulífsins. Þá voru þungavigtaraðilar í íslensku samfélagi og atvinnulífi tilbúnir að sættast við það stefnumið að sækja bæri um aðild að ESB.

Ég varpa líka þeirri spurningu út í salinn: Hvar er íslenska atvinnulífið þegar kemur að þessari stóru spurningu? Hvar er Viðskiptaráðið? Hvar eru fyrirtækin sem lúta þessum óstöðuga gjaldmiðli sem við höfum og blæða fyrir hann? Af hverju heyrum við ekki meira í þeim? Hverjum er krónan fyrst og fremst að þjóna? Ekki íslensku atvinnulífi þar sem krónan sveiflast eins og skopparakringla, þar sem fyrirsjáanleikinn er enginn, þar sem íslensk fyrirtæki þurfa að vera sérfræðingar á vettvangi gjaldeyrisviðskipta. Það er bara ekki boðlegt.

Þetta getur ekki bara verið verkefni stjórnmálamanna. Íslenskt atvinnulíf þarf að láta í sér heyra ásamt verkalýðshreyfingunni, eins og þessi fyrirbæri gerðu fyrir hartnær áratug síðan. Spurningin verður í rauninni ekki stærri en þetta. Þetta snýst um lífskjör íslensku þjóðarinnar. Þetta snýst um viðskiptatækifæri og samkeppnishæfi íslenskra fyrirtækja. Þetta snýst um að íslensk fyrirtæki og atvinnulíf og heimili (Forseti hringir.) standi jafnt að vígi og heimili og fyrirtæki í Evrópu. Þess vegna er spurningin svo brýn og þess vegna skiptir svo miklu máli (Forseti hringir.) að við svörum henni og sækjum um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er stóra hagsmunamálið, herra forseti.