151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum haft krónuna og sagt í gegnum tíðina: Við erum með lágt atvinnuleysi. Þangað til núna. Krónan dugir okkur ekki í þessari kreppu, á þessum krepputímum. En á móti höfum við sagt: Já, við höfum lítið atvinnuleysi, það er bara takturinn í okkar samfélagi, en á móti þá skuluð þið, kæri almenningur, sætta ykkur við dýrari matarkörfu og dýrara húsnæði.

Tökum dæmi af 40 millj. kr. íbúð sem keypt er hér og 40 millj. kr. íbúð sem keypt er í Danmörku á sama tíma. Danir greiða þegar upp er staðið 49 milljónir fyrir íbúðina en Íslendingar 84 milljónir. Þarna munar 35 milljónum á því að greiða upp eina íbúð. Ég held að það sé svolítið mikill peningur, ekki síst fyrir ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði: Þetta er stóra myndin sem við viljum draga fram.

Ég vil ítreka spurningu mína: Af hverju kjósa íslensk stórfyrirtæki að gera upp í evrum og fá heimild til þess, eða dollurum eins og iðnfyrirtæki sum hver, meðan almenningur situr uppi með áhættuna af sjálfri krónunni? Af hverju er það svo? Þetta er það sem við erum að draga fram. Við munum halda áfram að draga það fram og spyrja af hverju það sé þannig að þrátt fyrir að vaxtastig sé núna lágt sé samt verið að vara við greiðslubyrði í framtíðinni. Seðlabankastjóri dregur það m.a. fram að fólk verði að hafa í huga, þegar það kaupir húsnæði og tekur lán sem það þarf að greiða af næstu áratugina, að greiðslubyrði lánanna sé núna lág en verði það ekki í framtíðinni. Verið er að setja gríðarlega áhættu á heimilin en líka verið að draga ríkissjóð inn í þetta og taka gríðarlega gengisáhættu með töku erlendra lána. (Forseti hringir.) Það er breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar frá upphafi faraldursins, þegar ríkisstjórnin ákvað fyrst að fara í það að fjármagna skuldsettan ríkissjóð með krónunni og við studdum það. (Forseti hringir.) En svo kúventi ríkisstjórnin og fór yfir í erlenda lántöku og það er stórhættulegt.