151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:04]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að fagna því að þessi mál séu til umræðu í þingsal, þ.e. gjaldeyrismálin almennt í víðu samhengi við efnahagsmálin. Það er líka rétt að taka það fram að sú sem hér stendur er algerlega laus við allar kreddur í þessum málum, svo maður frábiðji sér ásakanir um slíkt, enda leitast sú sem hér stendur við að vera fagleg, nútímaleg og ekki síst víðsýn, svo maður grípi til hugtaka sem fólki er tamt í umræðunni nú til dags. Ég kýs að líta á þessa umræðu í kannski aðeins víðara samhengi heldur en bara umræðu um hvort hér skuli vera við lýði hin íslenska króna eða hinn evrópski sameiginlegi gjaldmiðill margra landa, evra. Það er auðvitað rétt að hafa í huga og það verður ekki hjá því komist að minna á það í þessari umræðu að allar myntir sveiflast, allir gjaldmiðlar. Þeir sveiflast í takt við efnahagslífið í þeim löndum þar sem þeir eru mest notaðir. Það er ekkert einsdæmi með íslensku krónuna, það á líka við um evruna og alla aðra gjaldmiðla heimsins. Í því ljósi má segja að það sé nokkur samkeppni í heiminum öllum á milli myntsvæða. Eitt stórt myntsvæði tengist bandaríkjadal, það er ákveðið myntsvæði sem ekki er reyndar bara bundið við Bandaríkin heldur líka fleiri lönd sem nota bandaríkjadal. Bandaríkjadalur er kannski sá gjaldmiðill sem óhætt er að segja að sé stærsti gjaldmiðillinn, í mestri notkun, af því að hann er notaður út um allan heim. En svo erum við með evrusvæðin, Asíumarkaðina og þar fram eftir götunum. Þannig að það er ákveðinn ávinningur í slíkri samkeppni á milli svæða, á milli mynta og myntsvæða, sem ég tel rétt að menn hafi aðeins í huga.

Þessi þingsályktunartillaga sem gengur út á það að hefja viðræður um upptöku á evru hér, þ.e. festa krónuna við evru og er kannski lítill munur á en þó nokkur munur er á því að taka algjörlega upp evru en að festa hana, er lögð fram með því fororði að þar með myndi slíkt fastgengi skapa stöðugleika hér á landi. Þá þarf auðvitað að velta fyrir sér stöðugleika í gengismálum og hafa í huga, eins og ég nefndi í upphafi, að evran sveiflast líka og hún sveiflast ekki í takt við íslenskt efnahagslíf heldur í takt við efnahagslíf annarra landa. En það þarf einnig að hafa í huga að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Sá sveigjanleiki sem við höfum haft með íslensku krónunni hefur búið til stöðugleika á öðrum sviðum þótt óstöðugleikinn sem hefur komið fram tengist virði krónunnar. Ég nefni kannski það sem mestu máli skiptir og það er atvinnustigið í landinu. Það er held ég alveg óumdeilt að okkur hefur tekist að halda atvinnustigi hér stöðugu og litlu atvinnuleysi og það verður auðvitað á kostnað einhvers, við áttum okkur alveg á því. Einn af þeim þáttum er einmitt sveigjanleiki íslensku krónunnar þar sem við höfum tekið út ákveðinn kostnað við að halda fjarri okkur Íslendingum þeirri miklu meinsemd sem öll Evrópusambandsríkin glíma við og hafa glímt við í áraraðir sem er viðvarandi atvinnuleysi, viðvarandi mikið atvinnuleysi. Mér finnst það skipta mjög miklu máli að menn hafi þetta í huga þegar talað er um krónuna og óstöðugleika hennar og sveiflur. Hún sveiflast nefnilega af ástæðu.

Svo langar mig líka að draga fram þegar menn nefna það að tengja krónu við evru að aðrir hv. þingmenn hér á undan mér hafa nefnt að það kunni að vera, vilji menn festa íslensku krónuna við einhvern gjaldmiðil, að evran sé ekki endilega heppilegust til þess arna. Við ættum frekar að setja eggin okkar í margar körfur og tengja krónuna við fleiri gjaldmiðla og einkum og sér í lagi þá gjaldmiðla sem íslensk utanríkisverslun byggist á, bæði innflutningur og útflutningur. Þar eru evrulöndin ekki endilega ríkjandi og getur jafnvel verið breytilegt eftir tímum. Einnig gæti verið heppilegt að tengja krónuna við aðra auðlindagjaldmiðla, við ríki sem við höfum jafnvel ekki mikil utanríkisviðskipti við en byggjast á svipuðu hagkerfi og okkar, þ.e. á náttúruauðlindum. Utanríkisverslun Íslands er fjölbreytt og það er engin ein mynt sem blasir við þegar kemur að þessu. Í því sambandi þarf líka að hafa í huga hver framtíð evrunnar er almennt. Þá er einnig rétt að hafa í huga að spákaupmennska með gjaldmiðla er nokkur áhættuþáttur sem ekki hverfur nema síður sé hjá gjaldmiðlum sem eru fasttengdir öðrum gjaldmiðlum.

Ég vil að lokum hins vegar nefna það sem mér finnst mestu máli skipta. Þessar gengistengdu áskoranir sem ég held að við getum öll verið sammála um að eru ákveðnar áskoranir, þessi óstöðugleiki sem kann að vera og við köllum gengistengdar áskoranir, hafa minnst með gjaldmiðilinn sjálfan að gera en miklu meira með alþjóðlegt efnahagslíf og efnahagslíf í löndunum í kringum okkur að gera, en einkum og sér í lagi ástandið hér heima fyrir hjá okkur, stjórn ríkisfjármálanna. Sveiflurnar í gjaldmiðlinum okkar og annarra gjaldmiðla eru afleiðing einhvers vanda en eru ekki vandinn sem slíkur. Það má ekki líta fram hjá þessu.

Ég vil að lokum segja, af því að ég hóf ræðu mína og mál mitt á að nefna hversu víðsýn ég væri og til marks um það vil ég bara varpa hugmynd fram, sem ég held að höfundar þingsályktunartillögunnar ættu að velta aðeins fyrir sér: Hví að binda sig við einn gjaldmiðil? Af hverju ekki bara að ganga út frá frelsi manna, heimila og fyrirtækja í landinu til að nota þá gjaldmiðla sem þau sjálf kjósa? Menn kjósa þannig með eigin seðlaveski eða sinni buddu eða með fótunum eða hvað menn vilja kalla það. Ég rifja upp að fyrir margt löngu, á þar síðustu öld, þar sem einkabankar sáu myntsláttu þá ríkti samkeppni um gjaldmiðla og það voru bara nokkuð stöðugir gjaldmiðlar sem náðust í næstum 100 ár í ýmsum löndum. Ég held að það væri áhugavert að taka meiri umræðu um þetta í þessum sal, spurninguna um það af hverju við erum að eftirláta ríkinu að slá mynt eða eins og þingsályktunartillöguhöfundar vilja, láta erlendum ríkjum það eftir að slá mynt eða hafa áhrif á efnahagslífið hérlendis. Hví ekki að — ég ætlaði að segja að afnema lög um íslensku krónuna, en þess þarf kannski ekki, en það þyrfti kannski að endurskoða þau lög sem eru frá 1968, ef ég man, og gefa öðrum gjaldmiðlum svigrúm hér á landi, gefa heimilunum svigrúm til að gera upp í erlendri mynt ef þau vilja það og fá þannig einhverja samkeppni um gjaldmiðlana. Svo mætti í framhaldinu, menn væru þá komnir mjög langt í víðsýninni og ég ætla ekki að þvinga slíkri víðsýni upp á fólk en ég nefni þetta hér, að skrefið þar á eftir væri spurningin um hvers vegna við værum að láta ríkisvaldið sjálft slá myntina. Aðrir gætu gert það og við höfum auðvitað vísi að því í alls konar rafmyntum sem eru að koma upp. Þessi mál held ég að ættu að vera hér í miklu meira mæli til umræðu í þingsal en ekki frá svo þröngu sjónarhorni eins og er í þessari þingsályktunartillögu.