151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

viðræður við ráðherraráð Evrópusambandsins um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir.

45. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir innleggið. Aðeins til að vekja athygli á og rifja upp tenginguna við Þjóðverja og Frakka. Ég vil benda hv. þingmanni á, sem hann veit náttúrlega mun betur en ég, að Danir eru tengdir við evru. Síðan eru Færeyingar vinir okkar sem eru að uppistöðu til með atvinnulíf sem er ekkert ósvipað okkar. Þar er grunnurinn fiskeldi, sjávarútvegur, landbúnaður og síðan er ferðaþjónusta. Þetta hefur komið alveg ágætlega út í Færeyjum. Þeir eru til að mynda ekki, sem ég hefði kannski haldið að hv. þingmaður myndi vekja athygli á, að glíma við verðtrygginguna sem hefur verið að margra mati mikill bölvaldur fyrir íslenskt atvinnulíf. Meira að segja miklir forkólfar innan verkalýðshreyfingarinnar hafa einmitt talað fyrir því að afnema verðtrygginguna meðan ég tel á hinn bóginn leiðina vera að tengja okkur við evruna og framtíðarmúsíkin er náttúrlega að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. En allt er þetta sett fram til að reyna að tryggja aukinn stöðugleika, fyrirsjáanleika.

Ríkisstjórnin hefur valið það m.a. að hætta við að fjármagna skuldsettan ríkissjóð með lántökum í krónuhagkerfinu. Hún er byrjuð að taka erlend lán. Fyrsta lánið var upp á eina 116 milljarða með allri þeirri gengisáhættu sem því fylgir fyrir ríkissjóð og heimilin. Ríkisstjórnin hefur líka farið í að gefa út merki um að hér verði verulegt haftaumhverfi þegar það er í rauninni bara korter síðan allur vinnumarkaðurinn fagnaði því að við værum komin út úr haftaumhverfinu. Við vitum það alveg að höft og vísbendingar um að það verði sett höft á efnahagsumhverfi okkar hefur verulega slæmar afleiðingar fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og ég tala nú ekki um að laða að erlent fjármagn.